Samstarfssamningur um rekstur námsvers á Laugum

Óli Halldórsson forstöðumaður Þekkingarnetsins og Anita Karin Guttesen verkefnisstjóri Seiglu handsa…
Óli Halldórsson forstöðumaður Þekkingarnetsins og Anita Karin Guttesen verkefnisstjóri Seiglu handsala samkomulagið

Þekkingarnet Þingeyinga undirritaði nýverið samstarfssamning við Seiglu-þekkingarsetur á Laugum í Reykjadal.

Um er að ræða samstarf um rekstur námsvers og námsþjónustu á Laugum í nýstandsettu húsnæði Seiglu-þekkingarseturs. Seigla er verkefni sem Þingeyjarsveit stofnsetti á síðasta ári og miðar að því að mynda klasa þekkingar- og menningarstarfsemi í húsnæði Seiglu. Í húsinu er nú rekið bókasafn Þingeyjarsveitar og hýst verkefnið Urðarbrunnur ásamt skrifstofuleigu til nokkurra aðila. Þá er í húsinu aðstaða til ýmis konar starfsemi annarrar, t.a.m. listsköpunar og verklegrar kennslu.

Þekkingarnetið rekur námsver með vinnuaðstöðu fyrir fjarnema á sólarhringsvísu í Seiglu ásamt því að hafa innréttað kennslustofu með fjarfundabúnaði og tilheyrandi græjum.  Þekkingarnetið hefur alllengi verið með starfsstöð á Laugum, en með þessari breytingu batnar hún verulega. Það er vonandi að námsfólk á öllum stigum, sem búsett er á Laugum og í nágrenni, nýti sér aðstöðuna og þjónustuna.

Nýjast