Samstarfshópur ráðherra fundar um ástand Mývatns
Þriðji fundur Samstarfshópur sem á að taka saman upplýsingar um ástand Mývatns fundaði í þriðja sinn í gær. Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði hópinn um miðjan síðasta mánuð.
Hópnum er gert að skila af sér samantekt til ráðherra fyrir 17. júní næstkomandi.
Jón Óskar Pétursson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, segir fundina hafa gengið vel. Það sé enn tími til stefnu og stefnt sé á að klára samantektina í tæka tíð.
Skorað hefur verið á ríkisstjórnina að grípa til aðgerða til að vernda lífríki Mývatns og Laxár sem sé í bráðri hættu vegna næringarefnaauðgunar.
Hlutverk hópsins er að draga saman bestu fáanlega þekkingu um:
- Ástand Mývatns og Laxár og lífríkis þess og þann vanda sem við blasir þar sérstaklega nú.
- Hverjar séu helstu uppsprettur næringarefna sem berast í Mývatn og líklegar orsakir þess vanda sem nú er við að eiga.
- Hvaða aðgerðir koma til greina til að reyna draga úr ofauðgun og bakteríublóma í vatninu.
- Hvernig unnt sé að bæta vöktun og upplýsingagjöf um ástand vatnsins og lífríki þess.