Samstarf um Atvinnu- og nýsköpunarhelgina á Akureyri
Í dag skrifuðu fulltrúar Háskólans á Akureyri, Stefnu hugbúnaðarhúss, Tækifæris fjárfestingasjóðs og Akureyrarstofu undir samstarfssamning um framkvæmd og þróun Atvinnu- og nýsköpunarhelgarinnar á Akureyri. Samningurinn felur í sér samstarf til næstu þriggja ára.
Atvinnu- og nýsköpunarhelgin á Akureyri hefur verið haldin undanfarin þrjú ár við góðan orðstír en henni er ætlað að stuðla að nýsköpun fyrirtækja og einstaklinga á efnahagssvæði Akureyrar. Markmiðið er að gefa frumkvöðlum kost á sérhæfðri ráðgjöf í þróun og markaðssetningu viðskiptahugmynda undir stjórn sérfræðinga.