Samruni Kjarnafæðis og Norðlenska samþykktur

Höfuðstöðvar Kjarnafæðis eru á Svalbarðsströnd.
Höfuðstöðvar Kjarnafæðis eru á Svalbarðsströnd.

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Kjarnafæðis og Norðlenska sem hafa átt í viðræðum um samruna frá því á haustmánuðum 2018. Gunnlaugur Eiðsson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis, segir í samtali við Vikublaðið að samþykkið hafi borist í gær.

„Það eru ákveðin skilyrði sem við þurfum að undirgangast áður en samrunin raungerist og það tekur 5-10 vikur,“ segir Gunnlaugur. Spurður um næstu skref segir Gunnlaugur að fljótlega verði skipuð ný stjórn. „Núna hefst eiginlega vinna til eflingar inn í framtíðina.“

Kjarnafæði var stofnað árið 1985 af bræðrunum Eiði og Hreini Gunnlaugssonum og framleiðir úrval kjötvara, einkum undir vörumerkinu Kjarnafæði. Fer starfsemin að mestu fram á Svalbarðseyri. Norðlenska varð til árið 2000 við samruna kjötiðnaðarstöðvar KEA og Kjötiðjunnar Húsavík, en stækkaði árið 2001 þegar félagið sameinaðist þremur kjötvinnslum Goða. Félagið er í eigu Búsældar, félags kjötframleiðenda í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Austur- og Suðausturlandi, en hluthafar Búsældar eru um 500 bændur.


Athugasemdir

Nýjast