Samningur um nýja viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli undirritaður

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla og Örn Jóhannsson framkvæmdas…
Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla og Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Hyrnu á Akureyri skrifuðu undir samning um smíði 1.100 fermetra viðbygginar við flugstöðina á Akureyri við athöfn á Akureyrarflugvelli. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Hjördís Þórhallsdóttir flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri fylgjast með. Mynd MÞÞ

„Það er afar ánægjulegt að taka þetta næsta og mikilvæga skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, en hún og Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Hyrnu á Akureyri skrifuðu undir samning um smíði 1.100 fermetra viðbygginar við flugstöðina á Akureyri við athöfn á Akureyrarflugvelli í gær.

Samningsupphæðin er 810,5 milljónir króna. Verkefninu er skipt upp í þrjá áfanga og snýst sá fyrsti um smíð nýrrar viðbyggingar norðan við núverandi flugstöð. Hinir áfangarnir tveir tengjast endurbyggingu eldra húsnæði, en áfangi tvö er endurbygging á núverandi komusvæði flugstöðvarinnar þar sem gert er ráð fyrir að verði innritunarsvæði í framtíðinni. Einnig er í þeim áfanga gert ráð fyrir nýju skyggni og að byggt verði töskubílaskýli ásamt tilheyrandi malbikun. Í þriðja og síðasta áfanganum verður núverandi innritunarsvæði endurbyggt sem og skrifstofuhluti þeirrar byggingar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið í byrjun ágúst árið 2023.

Sigrún Björk segir að um stórt verkefni sé að ræða, viðbyggingin verði um 1.100 fermetrar að stærð og muni hún bæta mjög aðstöðu fyrir lögreglu, tollinn, fríhöfnina og veitingastað á flugvellinum. „Þjónustan við farþega og flugfélög batnar til muna og við hlökkum til að taka þessa breyttu og bættu flugstöð í gagnið síðsumars 2023.“

 "Loksins, eygjum við þessa framkvæmd sem verður meiriháttar framfaraspor fyrir Akureyri, Norðurland og landsbyggðina alla," sagði Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri.

Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri byggingafélagsins Hyrnu segir starfsfólk félagsins spennt að takast á við þetta mikilvæga verkefni. „Verkáætlun liggur fyrir og okkar fólk reiðubúið að setja allt í gang.“ Örn lætur af störfum um áramót eftir rúmlega fimm áratuga starf.  Húsheild í Mývatnssveit hefur keypt Hyrnu og tekur við rekstinum um áramót.  Örn sagði ánægjulegt að hleypa verkefninu af stokkunum sem væri eitt af þeim síðustu hjá Hyrnu.  „Það verður ánægjulegt að sjá þessa stækkun rísa,“ segir hann.

 


Athugasemdir

Nýjast