Samningur um hafnríkisaðgerðir til að uppræta ólöglegar veiðar tekur gildi
Hinn 5. júní sl. öðlaðist gildi samningur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um hafnríkisaðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar Samningurinn var undirritaður af fulltrúa Íslands 22. nóvember 2009.
Samningurinn um hafnríkisaðgerðir er fyrsti bindandi alþjóðasamningur á sviði fiskveiða síðan svonefndur úthafsveiðsamningur var gerður árið 1995. Samningurinn er nátengdur efni úthafsveiðisamningsins, en í 23. gr. þess samnings er ríkjum fengin heimild og lögð á þau skylda til að beita hafnríkisreglum í lögsögu sinni til að stuðla að virkni alþjóðlegrar verndunar og stjórnarráðstafana. Við gerð samningsins var tekið mið af og litið til óbindandi leiðbeininga FAO um hafnríkisaðgerðir, sem voru helsta fyrirmynd hafnríkisreglna NEAFC, Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, og NAFO, Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar, sem Ísland ásamt öðrum strandríkjum við Norður-Atlantshaf hefur innleitt.