Samlist á Akureyri leitar að eyðibýli til sýningarhalds

Skráning er komin á fullt skrið í verkefnið Samlist á Akureyri, sem er grasrótarstarf listamanna í bænum með samstöðu og nýjar leiðir að markmiði. "Við leitum að reglum og finnum svo leiðir til að brjóta þær. Afraksturinn verður svo vonandi allt öðruvísi sýning sem sýnd verður um páskana."  

Þeir sem taka þátt í verkefninu eru meðal annars leikarar, dansarar, amma mín og vinir hennar, myndlistafólk, unglingar, tónlistarfólk, smiðir, leikmyndahönnuðir, fatahönnuðir, grafískir hönnuðir, förðunarfræðingar, bílstjórar og matráðsfólk svo eitthvað sé nefnt - allt af áhuga og í sjálfboðavinnu.  "Við notum ekki handrit heldur fynnum við sýninguna í rýminu, sögu þess og fólkinu sem tekur þátt. Við sýnum ekki á sviði heldur umbreytum við óvenjulegum rýmum í annan heim," segir í fréttatilkynningu.

Hópurinn leitar nú að spennandi auðu húsi eða eyðibýli á Akureyri undir sýninguna en æfingar hefjast 16. febrúar næstkomandi. Verkefnið er styrkt af Vinnumálastofnun, Akureyrarstofu og Rósenborg.  Allar upplýsingar um verkefnið er að fynna á akureyri.is/samlist eða facebook undir samlist á Akureyri. Skráning á samlist@akureyri.is

Nýjast