Samingur undirritaður um ,,Spánverjana"

Frá undirritun samnings Elvar Þór til vinstri og Sigfús Ólafur til hægri    Myndir aðsendar
Frá undirritun samnings Elvar Þór til vinstri og Sigfús Ólafur til hægri Myndir aðsendar

Í morgun var undirritaður samningur um smíði líkans af ,,Spánverjunum" en svo voru  þeir Harðbakur og Kaldbakur togarar  ÚA gjarnan nefndir.  Athöfnin fór fram á dekkinu á Kaldbak EA1 sem liggur við landfestar við löndunarbryggju ÚA.

Sigfús Ólafur Helgason hvatamaður að verkefninu flutti við þetta tilefni nokkur orð sem koma hér.

,,Ágætu gestir.

 Ég vil byrja á því að bera ykkur góðar kveðjur Þorsteins Vilhelmssonar fyrrum skipstjóra á Kaldbak,  sem og einnig vil ég nefna þá Sigtrygg Gíslason og Árna Evert Ingólfsson fyrrum skipstjóra hjá Ú.A. sem gátu ekki verið með okkur hér í dag og báðu mig fyrir góðar kveðjur. 

Við erum hér saman komnir um borð í þessa glæsilega skipi, Kaldbak EA 1. og það er táknrænt að við erum einmitt hér.

Það er líka táknrænt að hér fyrir framan okkur er stórglæsilegt líkan eftir Aðalgeir Guðmundsson af öðrum Kaldbak, EA 1. fyrsta togara Útgerðarfélags Akureyringa sem kom til Akureyrar  vorið 1947.

Og einmitt erum við saman komnir hér í dag til að ganga formlega frá smíði á Kaldbak EA 301 sem og í sama  líkani verður einnig Harðbakur EA 303.

Þetta allt saman á rætur að rekja til hugmyndar sem fæddist í vor er leið þegar hópur fyrrum sjómanna Ú.A. ákváðu að láta á það reyna hvort samstaða væri meðal sjómanna að safna fyrir líkani af Stellunum. Eins og alþjóð veit nú tókst svo vel til að safna fyrir Stellunum og í dag er stórglæsilegt fullbúið líkan af Sléttbak /Svalbak eftir Elvar Þór Antonsson tilbúið og verður það afhjúpað við hátíðlega athöfn þann 1. nóvember n.k þegar þann dag verða nákvæmlega 50. ár liðin síðan þessi glæsilegu togarar komu í fyrsta sinn til Akureyrar.

Hverfum aðeins aftur í tímann.

Árið er 1972. Þann 8. febrúar kom fyrsti skuttogari Ú.A. Sólbakur EA 5  til heimahafnar og endurnýjun skipastóls Ú.A. var hafin.

Samhliða viðræðum og samningum við Slippstöðina á Akureyri um smíði tveggja nýrra skuttogara fyrir Ú.A. þá fréttist af tveimur nýlegum verksmiðjutogurum í Færeyjum sem reyndust falir. Töluverðan tíma gekk að ganga frá samkomulagi um kaupin á Stellunum og á sama tíma var Útgerðarfélagið komið í viðræður við ríkið um kaup á tveimur 1000 tonna togurum sem verið var að hefja smíði í borginni Vigo  á Spáni.

Nú gerðust hlutirnir hratt. Slippstöðin rifti samningunum um smíði togarana fyrir Ú.A. og á sama tíma gekk saman með kaupin á Stellunum, og í ljósi þess þá vildu framkvæmdastjórar Ú.A.  þeir Gísli Konráðsson og Vilhelm Þorsteinsson bakka út úr þessu verkefni um togarana frá Spáni.  Töldu þeir Gísli og Vilhelm að Ú.A. gæti ekki og hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til  að endurnýja skipaflota sinn svo skart. Enn samningar eru samningar og þegar þeir eru gerðir skulu þeir standa,  og með þrautsegju þeirra félaga, Gísla og Vilhelms sem voru einstakir heiðursmenn, stuðningi bæjar og ríkis, Landsbankans  auk mikils velvilja bæjarbúa á Akureyri og samtakamæti tókst þetta allt með miklu sóma, og söguna er á eftir kom þekkja allir.

Þá komum við einmitt að því sem skiptir máli hér á þessari stund í dag,  og er tilefni komu okkar hingað.

Spánverjarnir svokölluðu,  Kaldbakur EA 301 sem kom til Akureyrar 19. desemebr 1974 og Harðbakur EA 303 sem kom til Ú.A. 29. mars 1975  áttu svo sannarlega eftir að reynast happafengur fyrir Ú.A. og þessi miklu og glæsilegu skip reyndust frábærlega alla tíð, fiskuðu mjög vel og fóru vel með áhöfnina og um borð völdust einkar hæfir og fengsælir yfirmenn sem og einvala áhöfn var á báðum skipunum alla tíð. Ég held ég segi það satt að allan sinn tíma er þeir voru í rekstri Ú.A. voru Kaldbakur og Harðbakur með aflahæstu skipum togaraflotans.

Það var því alveg í anda þess frábæra verkefnis er við hófum með smíði líkans af Stellunum að það kæmi hugmynd að smíði líkans  á þessum skipum líka.

Það var Davíð Hauksson sem lengi var skipverji á Harðbak sem nefndi það við mig þegar  Stelluverkefnið var að renna af stað.  að hann sagði við mig,  Fúsi „næst verða það Spánverjar“  eins og togararnir voru nefndir.

Og laggó,  í hópnum eru tæplega 170 manns og hingað erum við komnir,  langleiðina að verða búnir að safna fyrir því sem þarf,  og af því að ég nefndi það hér fyrr að þann 1. nóvember n.k verða 50 ár síðan Stellurnar Svalbakur og Sléttbakur komu,  þá er það líka svo að þann 19. desember á næsta ári verða einmitt líka 50. ár síðan Kaldbakur EA 301 lagðist hér að Togarabryggjunni á Akureyri í fyrsta sinn.  

Ég man þann dag árið 1974 og veðrið líka, hryssingur að norðan og kalt enda langt liðið á desember. Ég smá pattinn sá þetta skipsferlíki koma upp að bryggjunni og ég naut þess að vera í skjóli Ketils heitins Péturssonar þess mikla öðlings sem var skipstjóri hjá Ú.A. og fékk ég  því að fara með honum um allt skipið, og ég man þessa stund eins og hún hafi gerst í gær að þegar við komum upp í brú og ég horfði aftur skipið og niður á dekkið þá varð ég mjög lofthræddur.

Já, þessi skip voru svo sannarlega fljót að verða óskabörn Ú.A. og stolt bæjarins og í því ljósi sögu þeirra og áranna sem við margir hverjir áttum þeim samtíða og þess frábæra hóps sem hefur þjappað sér um verkefnið erum við komnir að þessari stund.

Ég held að við sem stöndum að þessum togarverkefnum eigum eftir að gera okkur það alveg ljóst að það sem við erum að gera er svo mikil og verðmæt saga, saga  sem við erum að endurskapa og já endurvekja með smíðum á þessum skipslíkönum af skipum sem stóðu undir mesta blómaskeiði Ú.A. og tíminn mun leiða það í ljós að sú minning sem hér er að raungerast mun fylgja sögu Ú.A. fyrr og síð um langa framtíð. Þetta var líka blómatími Akureyrar.

Skipaður hefur verið 5 manna undirbúningshópur sem fylga mun verkefninu alla leið og vera Elvari Þór til ráðgjafar með smíði líkansins. Hópinn skipa auk mín, Davíð Hauksson. Árni Evert Ingólfsson. Sævar Örn Sigurðsson og Víðir Benediktsson

Það er gaman að segja frá því hér að í þessum facebook hóp sem verkefnið er um, höfum við verið að safna ljósmyndum frá árunum um borð í Spánverjunum og nú þegar er komið dágott safn ljósmynda sem við munum varðveita á flakkara sem keyptur hefur verið og það er svo gaman að sjá umræðuna um myndirnar, staðinn og stundirnar,  þegar þessu er póstað á samfélagsmiðlana. Skora ég á ykkur sjómenn að halda áfram að pósta myndum og safna á flakkarann minningum sem ekki mega gleymast.

Eins og gangur lífsins er þá eru allmargir fyrrum sjómenn á þessum skipum farnir til veiða á himnum í öllu hreinni og alveg sléttum sjó og við minnumst þeirra allra með hlýhug og þakklæti fyrir kynnin góð. Blessuð sé minning þeirra allra.

Ég vil að lokum þakka forsvarsmönnum Samherja /Ú.A. fyrir hve vel þeir hafa tekið verkefninu okkar og nú í dag boðið okkur velkomna um borð í þetta glæsilega skip og það er sennilega ekki á hverjum degi sem þrír Kaldbakar koma við sögu á sama tíma, en það er að gerast hér í dag.

Einnig viljum við þakka áhöfn Kaldbaks fyrir afnotin af skipinu og við óskum þeim góðrar ferðar en skipði heldur til veiða nú rétt eftir hádegið.

Samningurinn sem við nú undirritum við Elvar Þór Antonsson hljóðar m.a upp á að verkinu verði lokið eigi síðar en 25. október á næsta ári og fullbúið,  merkt Kaldbak EA 301 á öðrum kynnungnum og Harðbak EA 303 á hinum og við munum blása til afmælisveislu þann 19.  desember 2024 nákvæmlega 50 árum eftir að Spánverjinn Kaldbakur EA 301 kom til Akureyrar og þeir bræður Kaldbakur  og Harðbakur  munu verða afhjúpaðir. Þann dag verður veisla, því lofa ég hér með.

Línuteikningarnar af Spánverjunum eru komnar á borðið á hjá Elvari á Dalvík,  en það var einmitt Böðvar Eggertsson sem var yfirvélstjóri á Harðbak í 13 ár sem útvegaði þær, og gaman að segja að Böðvar á einmitt afmæli í dag og við sendum honum góðar kveðjur og þetta er falleg afmælisgjöf sem Böðvar fær frá okkur. Einng hefur Slippurinn aðstoðað okkur við aðrar teikningar svo nú er okkur ekkert að vanbúnaði að hefja verkið. 

Aðeins að lokum,  við erum enn að safna og öll framlög stór sem smá hjálpa okkur í þessu verkefni. Nafnalisti þeirra sem leggja þessu lið mun fylgja líkaninu.

Vil ég nú biðja Elvar Þór Antonsson að koma hingað til mín og við skrifum formlega undir smíði á eins og einu stykki Spánverja.

Takk fyrir."


Athugasemdir

Nýjast