Samið um stækkun húsnæðis við VMA.

Verkmenntaskólinn á Akureyri
Verkmenntaskólinn á Akureyri

Í dag, föstudaginn 17. maí kl. 14.30 fer fram hátíðleg athöfn þar sem skrifað verður undir samning um stækkun á húsnæði skólans. Mennta- og barnamálaráðherra ásamt bæjarstjóranum á Akureyri og sveitarstjórum í Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppi og Grýtubakkahreppi munu skrifa undir samning um byggingu 1500m2 húsnæðis við skólann.

Í þessari viðbyggingu sem verður byggð á norðurplani skólans, mun fara fram nám í húsasmíði og bifvélavirkjun. Til viðbótar verður farið í framkvæmdir í núverandi húsnæði skólans þar sem aðstaða til náms í rafiðngreinum verður á einum stað í núverandi húsnæði byggingadeildar. Þar að auki er gert ráð fyrir því að t.d. aðstaða í háriðn verði stækkuð, aðstaða í matvælagreinum verður bætt og vélstjórnarhermir verður færður. Ýmsar aðrar breytingar til að bæta aðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk fylgir þessum húsnæðisbreytingum. Í kjölfar undirritunar á samningnum verður hægt að fara í hönnunarvinnu tengt stækkuninni og breytingum á núverandi húsnæði ásamt því að setja upp tímalínu fyrir verkefnið.

Þessi stækkun er hluti af átaki stjórnvalda til að bæta aðstöðu í framhaldsskólum þar sem fer fram nám í iðn- og starfsnámi með það að markmiði að fjölga nemendum í iðn- og starfsnámi.

Frá  þessu er sagt á heimasíðu VMA


Athugasemdir

Nýjast