Samhljómur kennslu, rannsókna og félagsstarfs

Eva María hengir upp kynningarplakat fyrir eigin rannsókn   Myndir aðsendar
Eva María hengir upp kynningarplakat fyrir eigin rannsókn Myndir aðsendar

„Líffræðin er órjúfanlegur þáttur okkar daglega lífs,“ segir Eva María Ingvadóttir, aðjúnkt við Auðlindadeild, aðspurð um mikilvægi líffræðinnar, kennslu og rannsóknir henni tengdar. „Fólk getur alveg reynt að leiða líffræðina hjá sér en fyrr eða síðar finnur hún okkur.“

Eva er meðstjórnandi í Líffræðifélagi Íslands og tók nýlega virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd Líffræðiráðstefnunnar sem haldin er annað hvert ár. „Tilgangur félagsins er að auka þekkingu á líffræði, auðvelda tengsl og skoðanaskipti milli félaga og tengsl þeirra við erlenda aðila með svipuð áhugamál,“ útskýrir hún. Ráðstefnan er þar lykilviðburður sem sameinar vísindafólk úr ólíkum greinum líffræðinnar – allt frá erfðafræðingum og örverufræðingum til ónæmisfræðinga.

Margt áhugavert var að sjá og kynnast

Í störfum sínum við Háskólann á Akureyri sér Eva samhljóm milli kennslu, rannsókna og þátttöku í félagsstarfi. „Mér finnst það beinlínis skylda mín þar sem ég kenni við háskóla að hjálpa til við miðlun rannsókna sem tengjast efninu sem ég ræði við nemendur dagsdaglega,“ segir hún.

„Ef við ræðum rannsóknir ekki okkar á milli, ef við miðlum þeim ekki áfram – til hvers erum við þá að rannsaka?“ spyr hún og bendir á að Líffræðiráðstefnan sé mikilvægur vettvangur fyrir slíka miðlun og samtal.

Vel var mætt á ráðstefnuna og gestir tóku virkan þátt

Metnaður og eldmóður í þátttakendum

Sem meðstjórnandi í félaginu átti Eva sæti í skipulagsnefnd ráðstefnunnar og gegndi jafnframt lykilhlutverki sem formaður vísindanefndar. „Ég hélt utan um innsend ágrip, ritrýni þeirra og samskipti við höfunda,“ segir hún. „Eftir ritrýni sá ég meðal annars um að skipta erindum í málstofur og hélt líka utan um nemendaerindi og veggspjöld.“

Öll framlög nemenda voru metin af tveimur sérfræðingum og að lokinni ráðstefnunni voru veitt verðlaun fyrir bæði besta erindi og besta veggspjald. „Það er alltaf ánægjulegt að sjá hve mikill metnaður og eldmóður býr í nemendunum,“ lýsir Eva og bætir við,

„fólk fær þarna tækifæri til að deila rannsóknum sínum og ræða málin. Mér finnst þetta sérstaklega dýrmætt fyrir þau sem starfa á landsbyggðinni – það er mjög auðvelt að einangrast utan höfuðborgarsvæðisins.“

Líffræðileg fjölbreytni – hjarta jarðarinnar

Þegar talið berst að stöðu líffræðinnar og mikilvægi rannsókna og kennslu á Íslandi segir Eva: „Ef það væri eitthvað eitt sem samfélagið ætti að ræða meira og hlúa að, þá væri það verndun líffræðilegrar fjölbreytni,“ segir hún.

Hún bendir á að fjölmargir þættir hafi neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni, svo sem loftslagsbreytingar, mengun og mannlegar framkvæmdir. „Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni er upphafið að endinum,“ segir hún ákveðin. „Þetta hljómar dramatískt – því þetta er dramatískt. Heilbrigð, líffræðilega fjölbreytt vistkerfi eru hjarta jarðarinnar.“

Eva nefnir að Ísland hafi þegar misst margar tegundir, svo sem geirfuglinn og keldusvínið, á meðan nýjar tegundir hafa borist til landsins – með misgóðum afleiðingum. „Lúpínan er falleg en hún breytir umhverfi sínu og hefur áhrif á innlendar tegundir,“ segir hún og bætir við að nýlegar tegundir eins og asparglyttan séu einnig dæmi um hvernig innflutningur getur raskað vistkerfum.

„Við ættum að leyfa náttúrunni að njóta vafans og halda í líflínuna okkar – fjölbreytnina,“ segir hún að lokum.

Jóhann Páll Jóhannsson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftlagsmála mætti og ávarpaði ráðstefnugesti

 

Félagið er opið öllum áhugasömum

Að lokum hvetur Eva öll sem hafa áhuga á líffræði til að taka þátt í starfi félagsins. „Það er auðvelt að ganga í félagið og við erum alltaf opin fyrir nýjum félögum sem vilja leggja sitt af mörkum,“ segir hún.

Fyrir vefinn:

Áhugasöm geta fengið upplýsingar um félagið og gengið í það á vefsíðu félagsins sem finna má hér. Einnig er hægt að fylgjast með starfinu á Facebook-síðu félagsins

 

Nýjast