Samherji undirritaði í gær lóðaleigusamning við Dalvíkurbyggð um 23.000 fermetra lóð undir nýtt húsnæði landvinnslu félagsins á Dalvík. Með samningnum er stigið stórt skref í átt að nýrri og fullkomnari vinnslu Samherja á Dalvík. Flutningur starfsemi Samherja á hafnarsvæðið skapar jafnframt möguleika fyrir bæjarfélagið að skipuleggja svæðið með öðrum hætti til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Áætluð fjárfesting Samherja í húsnæði og búnaði eru um 3.500 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, opinberaði þessi áform fyrirtækisins á fjölmennum hátíðarfundi með starfsfólki Samherja á Dalvík og forsvarsmönnum Dalvíkurbyggðar síðdegis í gær.
Í ræðu sinni sagði hann gaman að geta þess að í dag hafi Samherji tekið á móti nýjum Björgúlfi EA í Tyrklandi. Nýja skipið muni leysa hinn 40 ára gamla nafna sinn af hólmi og komi til heimahafnar á Dalvík í byrjun júní.
„Með nýju vinnslunni hér og smíði Björgúlfs EA er Samherji að fjárfesta í veiðum og vinnslu á Dalvík fyrir a.m.k. 6.000 milljónir króna. Heildarfjárfesting Samherja í veiðum og vinnslu í Eyjafirði verður því um 11.000 milljónir króna á einungis þremur árum,“ sagði Þorsteinn Már.