Samherji Holding hagnast um fjóra milljarða

Cuxhaven NC. Skipið er í eigu Deutsche Fischfang Union, dótturfélags Samherja Holding ehf. Mynd af v…
Cuxhaven NC. Skipið er í eigu Deutsche Fischfang Union, dótturfélags Samherja Holding ehf. Mynd af vef Samherja.

Hagnaður af rekstri alþjóðlega sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja Holding ehf. á árinu 2020 nam 27,4 milljónum evra eða um fjórum milljörðum íslenskra króna. Það er umtalsvert meira en árið 2019 þegar hagnaður félagins nam 1,4 milljónum evra.

Rekstur samstæðunnar felst í útgerð, landvinnslu, markaðs- og sölustarfsemi auk flutningastarfsemi. Ársreikningarnir voru samþykktir á aðalfundi félagsins hinn 29. desember 2021.

Ekki hefur enn tekist að staðreyna nægilega vel gögn vegna útgerðar í Namibíu sem nú hefur verið aflögð og flokkuð sem slík í ársreikningunum. Þá ríkir enn óvissa um málarekstur vegna fjárhagslegra uppgjöra sem tengjast rekstrinum í Namibíu. Af þessum ástæðum gerir stjórn Samherja Holding ehf. í skýrslu sinni fyrirvara um uppgjör þess félags sem annaðist starfsemina þar í landi. Sama fyrirvara gera endurskoðendur félagsins í áritun sinni. Að öðru leyti er áritun á reikningana fyrirvaralaus.

Framangreind óvissa hefur valdið þeim drætti sem orðið hefur á gerð ársreikninganna en stjórnin taldi mikilvægt að freista þess að fá sem gleggstar upplýsingar um þessa þætti áður en gengið yrði frá reikningunum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samherja.

Fjárhagslega sterkt félag

Tekjur samstæðu Samherja Holding ehf. af seldum vörum námu 308,6 milljónum evra árið 2020 samkvæmt ársreikningi þess árs og lækkuðu nokkuð miðað við árið á undan þegar þær námu 355,7 milljónum evra.

Eignir samstæðunnar námu 585,4 milljónum evra í lok ársins 2020, samanborið við 627,0 milljónir evra í lok ársins 2019. Eigið fé nam 393,2 milljónum evra í lok ársins 2020 en í lok árs 2019 nam eigið fé samstæðunnar 392,4 milljónum evra.

Langumsvifamesti þátturinn í rekstri Samherja Holding ehf. eru sjávarútvegsfyrirtæki í Evrópu og Norður-Ameríku. Af erlendum fyrirtækjum má nefna Deutsche Fischfang Union (DFFU) í Cuxhaven sem er elsta sjávarútvegsfyrirtæki Þýskalands. Samherji Holding hefur átt aðkomu að rekstri þess félags í rúmlega aldarfjórðung með góðum árangri. Hér má einnig nefna sölufyrirtækið Seagold og sjávarútvegsfyrirtækið Onward Fishing í Bretlandi og fyrirtæki í Noregi og Kanada. Í rekstri þessara félaga hefur verið lögð rík áhersla á fjárfestingar þannig að innviðir þeirra, tækjakostur og aðrar vinnuaðstæður starfsfólks endurspegli það besta sem völ er á hverju sinni.

Á áðurnefndum aðalfundi Samherja Holding ehf. fór fram stjórnarkjör í félaginu og voru Eiríkur S. Jóhannsson, Óskar Magnússon, Kristján Vilhelmsson, Helga Steinunn Guðmundsdóttir og Þorsteinn Már Baldvinsson kosin í stjórn þess.

Lítur björtum augum til framtíðar

„Eins og ársreikningarnir sýna er Samherji Holding ehf. sterkt félag með mikla möguleika til framtíðar litið. Efnahags- og lausafjárstaðan er góð og sú vinna sem ráðist hefur verið í á undanförnum mánuðum mun skila árangri. Þrátt fyrir áföll í rekstrinum er ég bjartsýnn á framtíðina því hjá okkur starfar gott fólk. Samherji Holding er alþjóðlegt sjávarútvegsfyrirtæki með starfsemi víða um heim. Íslendingar eiga að vera ófeimnir við að taka þátt í atvinnurekstri erlendis. Við eigum að nýta hátt menntunarstig, þekkingu okkar og reynslu í fyrirtækjarekstri á erlendum vettvangi,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja Holding ehf.

 


Athugasemdir

Nýjast