Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, var staddur í röð við innritunarborð á flugvellinum í Brussel, er tíðindamaður heimasíðu Einingar-Iðju náði á honum. Hann sagði að starfsmenn fyrirtækisins hafi allir lagst á eitt og gert sitt besta við mjög erfiðar ytri aðstæður. Hann sagði að allir starfsmenn hefðu fengið bréf í dag þar sem segir m.a. að á undanförnum mánuðum hefur fyrirtækið getað þjónað viðskiptavinum sínum af nauðsynlegu öryggi við mjög erfiðar ytri aðstæður. „Þetta var einungis mögulegt með mikilli vinnu ykkar allra, góðri samvinnu milli veiða, framleiðslu og markaðar og þeirri staðreynd að allir gerðu sitt besta og því hafi fyrirtækið ákveðið að greiða starfsmönnum þessa launauppbót," segir í bréfinu. Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju og fagnar félagið þessari ákvörðun fyrirtækisins.