„Sameinumst í einangruninni!“

Harpa Fönn Sigurjónssdóttir ólst upp í Kaldbak á Húsavík en fluttist til höfuðborgarinnar til að fara í menntaskóla og hefur að mestu búið þar síðan. Hún er lögfræðingur að mennt og hefur m.a. starfað sem slíkur fyrir Myndstef en hún lagði áherslu á höfundaréttarmál í námi sínu. Hún hefur þó lengst af starfað með einum eða öðrum hætti við listsköpun og skipulagningu listviðburða.

Harpa Fönn

Harpa stofnaði leikhópinn Lakehouse árið 2016 með manninum sínum, Árna Kristjánssyni leikstjóra sem hefur sett upp leikverkin  Í samhengi við stjörnurnar og Rejúníon. Hún hlaut tilnefningu til Grímuverðlauna fyrir það fyrrnefnda. Nú er leikhópurinn að setja upp verk í samstarfi við Isavia sem er búið að vera í undirbúningi í ein þrjú ár. „Við fengum þessa hugmynd þegar við vorum í fæðingarorlofi í Mexíkó þegar við vorum að undirbúa listahátíðina Skjálfanda sem haldinn hefur verið á Húsavík undanfarin ár,“ segir Harpa í samtali við Vikublaðið.

Þau þóttust vita að um allt land leyndust skúffuskáld og aðrir listamenn sem aldrei höfðu starfað við skapandi listir. Úr varð að þau auglýstu eftir textum frá fólki um allt land þar sem hugmyndin var að safna þeim saman og gera úr þeim heildstætt verk. Skemmst er frá því að segja að þeim bárust um 150 verk frá 50 höfundum.

Sigga Lára Sigurjósdóttir var fengin til að ritstýra verkinu og gera handrit úr verkum 11 höfunda. Úr varð Einangrun, 30 mínútna langt samskotsverk þessara höfunda. Í verkinu er raðað saman ljóðum, örsögum og stuttum leikþáttum og verður það flutt af Guðmundi Inga Þorvaldssyni í leikstjórn Árna Kristjánssonar. Harpa Fönn fer með framkvæmdastjórn. Sýningarnar eru liður í Listahátíð í Reykjavík.

Tvisvar hefur þurft að fresta sýningum verksins vegna Covid-19 faraldursins en allt er þegar þrennt er. Harpa Fönn segir að verkin sem gjörningurinn er settur saman úr séu afar fjölbreytt en að þarna sé verið að fjalla um einmanaleika á stafrænni öld. 

„Við lifum á öld samskipta á stafrænum vettvangi en á sama tíma einkenna einmanaleiki og depurð líf alltof margra. Deilum við raunverulega gleði og sorg með hvert öðru? 

Leikhúsið er listform sameiningar og hér er hinn kynngimagnaði kraftur sviðslistanna nýttur til hugrenninga um einangrun í öllum sínum myndum. Hvað er það sem einangrar okkur, frá hverju og hvers vegna?,“ segir Harpa.

Leikhópurinn Lakehouse sækist eftir því að veita fjölbreyttum röddum hljómgrunn og kallaði eftir efni frá skáldum í öllum landshlutum við undirbúning sýningarinnar. „Lakehouse vill með þessu verki heiðra íslenska trúbadorinn, sögumanninn eða shamaninn sem glæðir samverustundir þorpsbúanna lífi með tilfinningaþrungnum frásögnum sínum, ádeilu, háði og kímni. Sameinumst í einangruninni!,“ segir Harpa Fönn.

Sýningar fara fram á eftirfarandi dögum og stöðum en enginn aðgangseyrir er á sýningarnar:

10. júní: Reykjavíkurflugvöllur kl. 17:00
11. júní: Egilsstaðaflugvöllur kl. 15:15 og kl. 18:45
12. júní: Akureyrarflugvöllur kl. 13:00 og kl. 17:00
13. júní: Ísafjarðarflugvöllur kl. 10:20 og kl. 18:00.


Athugasemdir

Nýjast