Sameinað sveitarfélag hyggur á forystuhlutverk í loftslagsmálum
Skútustaðahreppur hefur samið við nýsköpunarfyrirtækið Greenfo um að kortleggja kolefnisspor innan sveitarfélagsins. Þetta kemur fram í pistli sveitarstjóra, Sveins Margeirssonar. Í pistlinum segir hann að framtíðarsýn sameinaðs sveitarfélags Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar sé forystuhlutverk í loftslagsmálum.
Hið sameinaða sveitarfélag er það stærsta á landinu og nær yfir um 12% landsins.
„Tekið verður tillit til beinnar losunar vegna reksturs sveitarfélagsins, samfélagslegrar losunar og losunar frá landi, sem er stærsti einstaki losunarvaldur á Íslandi, með um 60- 70% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Flestir aðilar eru meðvitaðir um lítinn hluta af sínu kolefnisspori. s.s. losun vegna bruna á jarðefnaeldsneyti, orkunotkun og sorpi,“ segir í pistlinum.
Sveinn bendir jafnframt á að stærri hluti kolefnisspors komi hinsvegar frá virðiskeðju fyrirtækja og opinberra aðila vegna kaupa á vörum og þjónustu.
„Lausn Greenfo hefur þá sérstöðu að reikna kolefnisspor fyrir alla virðiskeðjuna, t.d varðandi matarinnkaup, framkvæmdir og akstur og flutninga. Meira en 85% af kolefnisspori sveitarfélagsins kemur frá innkaupum og flutningi á vöru og þjónustu en einungis 5% frá bruna og framleiðslu jarðefnaeldsneytis. Hugbúnaðarlausn Greenfo býður upp á að taka gögn beint úr bókhaldskerfi sveitarfélagsins. Með lausn Greenfo fáum við áður óþekkta yfirsýn yfir kolefnisspor okkar. Við getum greint okkar kolefnisspor niður á einstaka rekstrareiningar og birgja. Með að fá heildaryfirsýn yfir okkar kolefnisspor, sjáum við hvar tækifæri eru til að draga úr okkar losun og getum forgangsraðað verkefnum m.t.t. til umhverfis og hagkvæmni og þannig mótað skilvirka loftslagsstefnu og -aðgerðir.“