Sameiginlegum rekstri byggingarnefndar og byggingarfulltrúaembættis hafnað
Á síðasta fundi sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps var tekið fyrir bréf þar sem Steinunn Fjóla Sigurðardóttir og Hafsteinn Pálsson, hafna fyrir hönd umhverfisráðherra, beiðni Jóns Hróa Finnssonar, fyrir hönd Svalbarðsstrandarhrepps, Grýtubakkahrepps, Eyjafjarðarsveitar og Hörgársveitar, um að ráðherra staðfesti samning sveitarfélaganna um sameiginlegan rekstur byggingarnefndar og byggingarfulltrúaembættis.
Jafnframt var þess farið á leit að sveitarfélögin geri sameiginlega samþykkt í stað samnings, með tilvísan til túlkunar ráðuneytisins á 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Lögð voru fram drög að samþykkt sem byggja á áðurnefndum samningi. Sveitarstjórn samþykkti framlögð drög að samþykkt um sameiginlega byggingarnefnd og embætti byggingarfulltrúa Eyjafjarðar.