Sala á bjór dróst saman um tæp 4% á milli ára

Verksmiðja Vífilfells á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Verksmiðja Vífilfells á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Sala á bjór dróst saman hjá Vínbúðunum á liðnu ári um tæp 4%, svipaður samdráttur varð í sölu á bjór frá Viking verksmiðjunni á Akureyri, en aftur á móti varð mikil aukning, eða um 21% hjá Bruggsmiðjunni á Árskógsströnd.  Sala á árstíðabundnum bjór hefur aukist, einkum á jólabjór.  Þorrabjór er að koma á markað, en sala á honum hefst á morgun, á Bóndadag 20. janúar. Unnsteinn Jónsson framleiðslustjóri hjá Viking á Akureyri segir að sala á bjór frá verksmiðjunni hafi dregist saman um tæp 4%, sem er svipaður samdráttur og varð almennt í bjórsölu hjá Vínbúðunum. 

„Bjórsala hefur farið minnkandi undanfarin ár, frá toppárinu 2008 hefur salan dregist saman um 9,2%.  Bæði er minni sala í Vínbúðunum og eins á veitingahúsum,“ segir hann. Aukning hafi aftur á móti orðið á liðnu ári í sölu á bjór í Fríhöfninni, en reglum var breytt um mitt síðasta ár og mega ferðalangar nú taka með sér meira magn en áður.

Agnes Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar á Árskógsströnd segir að liðið ár hafi verið gott, sala á framleiðsluvörum fyrirtækisins jókst um 21% á milli áranna 2010 og 2011.  „Við erum himinlifandi yfir því,“ segir hún.  Verksmiðjan var stækkuð á síðasta ári um 200 fermetra og framleiðslugetan er nú 550 þúsund lítrar.  Þá hefur starfsfólki verið fjölgað og starfa nú 8 manns hjá Bruggsmiðjunni.

Unnsteinn og Agnes eru sammála um að  að sala á árstíðabundnum bjór hafi aukist, fólk kunni að meta þá framleiðslu en einkum og sér í lagi hafi sala á jólabjór verið mikil undanfarin ár.  Þorrabjór kemur í verslanir Vínbúðarinnar á morgun og er búist við þokkalegri sölu á honum, en fyrirtækin framleiða einnig páskabjór að venju. Agnes er sérlega ánægð með að jólabjórinn Kaldi náði því að verða sá þriðji söluhæsti á síðasta sölutímabili.

Áfengisgjald hækkaði um nýliðin áramót um 5,1%, þá er verð á eldsneyti í hæstu hæðum sem hefur áhrif á flutningskostnað. „Allar þessar álögur gera okkur erfitt fyrir og við eigum ekki von á að salan aukist neitt á þessu ári, hún verður sennilega á svipuðu róli og undanfarin ár, en vonandi förum við að ná botninum,“ segir Unnsteinn.  Viking hefur flutt út bjór undanfarin misseri, bæði til Bretlands og Bandaríkjanna og segir hann að vonir séu bundnar við að útflutningur aukist.  „Helstu möguleikar okkar felast í útflutningi á meðan ástandið er með þessum hætti heima fyrir,“ segir hann.

Agnes segir að skattaumhverfið sér sérlega óhagstætt fyrirtækjum í landinu, skattar hafi hækkað og álögur aukist.  „Ég myndi gjarnan vilja sjá meira verða eftir hjá fyrirtækjunum, eins og staðan er núna fer bróðurparturinn til ríkisins og maður nánast upplifir sig sem ríkisstarfsmann, það væri eins hægt að vinna hjá ríkinu.  Það er eiginlega orðið sjúkt hvað ríkið tekur mikið til sín.  Ég veit ekki hvar þolmörkin liggja en held að við séum alveg komin upp að þeim, “ segir hún en bætir við að samt sem áður ríki bjartsýni og menn ætli sér að komast í gegnum þetta.

 

Nýjast