Framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) tók ákvörðun á fundi sínum í janúar sl. um að opna fyrir samfélagsmiðilinn Facebook innan veggja sjúkrahússins. Þetta kemur fram á vef SAk.
Í kjölfarið var opnuð ritstýrð síða fyrir sjúkrahúsið sem nýtt verður til upplýsingamiðlunar og fréttaflutnings af starfi stofnunarinnar. Einnig var útbúinn lokaður hópur fyrir starfsfólk Sjúkrahússins á Akureyri sem hugsaður er til upplýsingamiðlunar milli starfsfólks, hvort heldur sem er á faglegum nótum eða til skemmtunar. Innan hópsins verður hægt að auglýsa skipulagða fræðslu og viðburði, en einnig er hún vettvangur til þess að auka sýnileika einstakra deilda og starfseininga í daglegu starfi og stuðla að aukinni liðsheild.
Ritstjóri síðunnar er Ingveldur Tryggvadóttir, upplýsingafræðingur.