SAk - Aukinn fjöldi ferðamanna árið 2022

Ferðafólk er yfirleitt mjög sátt við þjonustu  sem það fær á SAk       Mynd  Vikublaðið
Ferðafólk er yfirleitt mjög sátt við þjonustu sem það fær á SAk Mynd Vikublaðið

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fjöldi ferðamanna sem kemur hingað til lands hefur farið vaxandi. Samhliða þeirri fjölgun má ætla að fleiri þurfi að leita eftir heilbrigðisþjónustu. Margir ferðamenn sækja á bráðamóttökur / heilsugæslustöð með minniháttar áverka eða væg veikindi en það er alltaf svo að nokkrir þurfa að leggjast inn á sjúkrahús í einhvern tíma og fá þar sérhæfða þjónustu.

Mikil aukning hefur verið í innlögnum ferðamanna (ósjúkratryggðra einstaklinga) á Sjúkrahúsið á Akureyri undanfarin ár og voru um 120 einstaklingar lagðir inn árið 2022 samanborið við 52 árið áður. Líklega ástæðu aukningarinnar má rekja til fjölgunar erlendra ferðamanna í kjölfar minni ferðatakamarkana af völdum Covid-19. Mestur er fjöldinn yfir sumarmánuðina með tilheyrandi álagi á deildir SAk. Um helmingur þeirra ferðamanna sem leggst inn á sjúkrahúsið koma frá Bandaríkjunum og Þýskalandi.

Því fylgir töluvert álag að taka á móti og annast fólk af erlendu bergi brotnu m.t.t. mismunandi tungumála og þörf fyrir túlkaþjónustu auk þess sem mikil vinna felst í umsýslu við tryggingamál og aðra umsýslu með hverjum þeim ósjúkratryggða einstaklingi sem leggjast þarf inn á sjúkrahúsið. Það er ánægjulegt að segja frá því að ferðamennirnir eru undantekningarlaust ánægðir með þjónustuna á SAk og hafa lang flest orð á því hvað umönnun og þjónusta sem þau fá frá öllum sem að þeirra málum koma sé góð og er það afar gott fyrir okkur að fá slíkan vitnisburð.

 Frá þessu er sagt á heimsíðu SAk www.sak.is

 


Athugasemdir

Nýjast