Sagan í söng í Samkomuhúsinu á Húsavík

Leikfélag Húsavík er um þessar mundir að leggja lokahönd á áhugaverða sýningu þar sem saga félagsins er í öndvegi höfð. Um er að ræða sérstaka söngsýningu sem verður frumsýnd í Samkomuhúsinu á sunnudagskvöld nk..

„Við köllum þetta Sagan í söng og erum búin að taka um 12 lög úr verkum sem hafa verið sett upp hjá félaginu í gegnum tíðina. Í sumum tilfellum eru það þeir sem að sungu lögin á sínum tíma sem eru að syngja lögin sín aftur en í öðrum tilfellum erum við með endurnýjun, nýtt fólk að syngja,“ segir Halla Rún Tryggvadóttir í samtali við Vikublaðið en hún verður kynnir á sýningunni ásamt Benóný Val Jakobssyni.

söngsýning

„Við erum kynnar, ég og Benni. Við munum útskýra söguna  á bak við lögin. Úr hvað verkum þau eru, hvenær verkin voru settu upp, hver leikstýrði og svo framvegis,“ útskýrir Halla sem einnig er danshöfundur en hún var einmitt á leið á æfingu þegar blaðamaður náði af henni tali. „Við erum að leggja lokahönd á einn dans sem var eftir að klára,“ segir hún en meðfylgjandi myndir eru frá þeirri æfingu.

Eins komið er fram þá er um að ræða lög úr verkum sem leikfélagið hefur sett upp í gegn um tíðina og er elsta lagið frá sýningu sem sett var upp árið 1972.

Halla segir að fyrirhugaðar séu fjórar sýningar, frumsýning á sunnudag nk., þriðjudag í næstu viku og föstudag og laugardag að viku liðinni. Með sýningunni er Leikfélagið að safna fyrir nýju hljóðkerfi í Samkomuhúsið.

„Við hefðum gjarna viljað sýna oftar en erum svolítið knöpp á tíma því fólk er að fara eitthvað úr bænum svona eins og gengur og gerist,“ segir Halla og bætir við að fjöldi söngvara taki þátt í sýningunni.

„Það eru svo margar stelpur úr unglingadeild Borgarhólsskóla sem voru til í að vera með okkur. Við erum með eitt lag úr Gúmmí Tarsan en það þarf krakka í það. Ég er líka mjög fegin að við enduðum á því að fá svona marga krakka með okkur, því það hafa margir verið að detta úr sýningunni hjá okkur vegna ýmissa orsaka. Þær eru að standa sig gríðarlega vel þessar stelpur og eru bara mjög flottar,“ segir Halla Rún að lokum.  

 


Athugasemdir

Nýjast