Saga Travel og Könnunarsögusafnið: Í fótspor tunglfaranna á Íslandi

Á ferð um æfingaslóðir geimfaranna í fyrrasumar. Og farkosturinn af sömu sort og árgerð og sá sem fl…
Á ferð um æfingaslóðir geimfaranna í fyrrasumar. Og farkosturinn af sömu sort og árgerð og sá sem flutti Armstrong og félaga fyrir rúmum 50 árum.

Í sumar hefst samstarf Saga Travel og Könnunarsögusafnsins  á Húsavík þar sem boðið verður upp ferðir á þær slóðir hvar  Apollo geim- og tunglfarar, með sjálfan Neil Armstrong í fararbroddi, æfðu í Þingeyjarsýslu fyrir fyrstu ferðir mannkyns að og á aðra hnetti. Þessar æfingar stóðu yfir fyrir rétt um hálfri öld og var þess rækilega minnst í fyrra með ýmsum viðburðum á vegum Könnunarsögusafnsins.

Ferðir af þessu tagi eru nýjung í ferðaframboði á Íslandi og vísast þó víðar væri leitað í veröldinni.

Þegar hefur verið kynnt á vef Saga travel ferð sem hefst í Reykjavík 6. júlí n.k. og í þeirri ferð verður meðal leiðsögumanna Dr. James W. Rice sem hefur í aldarfjórðung  starfað fyrir NASA í tengslum við undirbúning mannaðra ferð til tunglsins og Mars og er m.a. sérfróðum um vatn á rauðu plánetunni. Og hann hefur áður starfað á Íslandi við jarðfræðirannsóknir af ýmsum toga.

Í þessari 7 daga ferð er m.a. komið við í hvalaskoðun á Húsavík, Tjörnes skoðað, Flateyjar/ Húsavíkurmisgengið kannað og Dettifoss sóttur heim. Að sjálfsögðu verður litið við í Holuhrauni og það gaumgæft.  Og síðan farið á slóðir Armstrong og félaga á Öskjusvæðinu og áfram niður í Mývatnssveit og Gjástykki kannað í leiðinni.

Jarðfræðin er sem sé í öndvegi í þessari ferð, eins og raunin var auðvitað fyrir 50 árum, þegar bandarískir geimfarar voru hér á ferðinni. JS

Nýjast