07. mars, 2008 - 14:05
Fréttir
Flugfélag Íslands hefur gengið frá samningi við Saga Capital Fjárfestingarbanka um að bankinn annist sölu á Twin Otter flugvélum
félagsins og tengdum rekstri á Akureyri. Forsvarsmenn Saga Capital segja greinilegt að mikill áhugi sé á sölunni meðal flugrekstraraðila og
fjárfesta um allt land, sér í lagi á Norðurlandi enda reksturinn að miklu leyti bundinn við Akureyri. Um tuttugu manns vinna við rekstur Twin Otter
vélanna á Akureyri, aðallega flugvirkjar og flugmenn. Flugfélag Íslands tilkynnti fyrir hálfum mánuði að félagið hygðist skilja
rekstur Twin Otter flugvélanna frá öðrum rekstri félagsins og selja þær eignir sem rekstrinum fylgja.
Um er að ræða tvær Twin Otter flugvélar og tengda viðhaldsþjónustu á Akureyri, samninga um áætlunarflug frá Akureyri til
Vopnafjarðar, Þórshafnar og Grímseyjar og samninga um leiguflug, aðallega á Grænlandi. Saga Capital verður fulltrúi Flugfélags
Íslands gagnvart kaupendum og heldur utan um sölu á þessum hluta rekstrarins. Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Saga Capital segir
ljóst að bæði flugrekstraraðilar og fjárfestar séu áhugasamir um þessa sölu. Margir sjái Akureyri sem ákjósanlega
heimahöfn enda sé fyrirsjáanleg mikill uppbygging á Akureyrarflugvelli með fyrirhugaðri lengingu flugbrautarinnar. Árni Gunnarsson,
framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands segir að það hafi verið eðlilegt að leita ráðgjafar hjá Saga Capital, þeir hafi
komið sterkir inn á markaðinn á síðasta ári, séu með mikla þekkingu á viðskiptalífinu og geti boðið góða
og öfluga þjónustu.
Twin Otter flugvélarnar eru um margt einstakar flugvélar. Þær taka upp í 19 manns í sæti, geta lent á allt niður í 150 metra langri
braut og eru þannig úr garði gerðar að hægt er að setja nánast hvaða lendingarbúnað sem er undir þær. Þannig er til
dæmis bæði hægt að setja undir þær skíði til að lenda á snjó eða jökli en einnig stór dekk, svipað og gert er
við jeppa, til að lenda á grófum flugbrautum. Þessi eiginleiki veldur því að vélarnar hafa verið sérstaklega vinsælar í
leiguverkefnum á Grænlandi, þar sem þær hafa meðal annars verið notaðar til að lenda með göngumenn á Grænlandsjökli og flytja
vistir og farþega fyrir danska herinn og hinar ýmsu vísindastofnanir. Mikill vöxtur hefur einkennt flug Flugfélags Íslands milli Akureyrar og Reykjavíkur
og mun félagið halda þeirri þjónustu áfram af fullum krafti. Ofangreindar breytingar hafa ekki áhrif þar á. Ferðir eru milli 8-14 á
dag og fjölgun farþega á síðasta ári var um 12% og það sem af eru þessu ári hefur farþegafjöldinn aukist um 10% miðað
við sama tímabil á fyrra ári, segir í fréttatilkynningu.