Safnað fyrir hjartaþolprófstæki

Hallgrímur Hreiðarsson og Anna Kristrún Sigmarsdóttir við tækið.
Hallgrímur Hreiðarsson og Anna Kristrún Sigmarsdóttir við tækið.

Á starfsstöð HSN á Húsavík hafa um langt skeið verið framkvæmd hjartaþolpróf. Frá árinu 2004 hefur verið notað tæki sem Lionsklúbbur Húsavíkur, mörg kvenfélög, Kveðandi, Styrktarfélag HÞ o.fl. söfnuðu fyrir og gáfu.

Það tæki er nú úr sér gengið og komið að endurnýjun. „Tækið hefur gagnast Þingeyingum vel þessi ár en rík þörf er á að geta metið brjóstverki að nokkru leyti áfram í heimabyggð og eins gagnast það fyrir mat í HL leikfimi. Því leitum við liðsinnis ykkar Þingeyingar góðir enn á ný til endurnýjunar á mikilvægum búnaði,“ segir á vef Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

Við hjartaþolplróf (oft líka nefnt álags- eða áreynslupróf) er tekið hjartalínurit í hvílu og við áreynslu. Einstaklingurinn er látinn erfiða á þrekhjóli og er tengdur við sérstakt hjartalínuritstæki og tölvu meðan á áreynslu stendur og einnig í hvíld á eftir áreynslunni.   Blóðþrýstingur er einnig mældur endurtekið meðan á áreynslu stendur.

Rannsóknin gefur upplýsingar um hvernig hjartað starfar undir álagi. Einnig fást upplýsingar um blóðþrýsting og lungnastarfsemi. Ákveðnar breytingar í hjartalínuritinu við álag geta bent til þess að blóðflæði sé skert í kransæðum. Algengast er að hjartaálagspróf sé gert til þess að athuga hvort merki eru um kransæðasjúkdóm, td. hjá fólki með brjóstverki. Ef slík merki koma fram er oft mælt með kransæðamyndatöku (þræðingu) í framhaldinu.

Þeir sem vilja leggja þessu verkefni lið geta lagt inn á reikning styrktarfélagsins: 

Banka- og reikningsnúmer: 1110-26-1060

Kennitala félagsins: 520296-2479

 

Nýjast