Leikmenn Skautafélags Akureyrar minntu gesti sína í Skautafélagi Reykjavíkur á að þeir fá ekkert ókeypis í baráttu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn þegar liðin áttust við í þriðja sinn í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.
Heimamenn mættu að gríðarlegum krafti til leiks og komust í 3-0 á fyrstu sjö mínútunum. Ingvar Þ. Jónsson skoraði tvö markanna og Josh Gribben það þriðja.
Áfram hélt stórsókn SA og áttu þeir hvorki fleiri né færri en þrjú stangarskot áður en Orri Blöndal skoraði fjórða mark liðsins á 15. mínútu.
Fyrir lok lotunnar hafði SR minnkað muninn með marki Anrþórs Bjarnasonar og var það mark verulega óverðskuldað miðað við gang leiksins.
Í annari lotu var mikil bárátta og fjölmörg færi. Gestirnir skoruðu eina mark lotunnar og var þar að verki Guati Þormóðsson. Með ólíkindum má telja að SA hafi ekki skorað mark en markvörður SR fór hreinlega að kostum í lotunni, sem og öllum leiknum.
Í þriðju og síðustu lotu héldu heimamenn svo áfram að sækja og fá færi en það voru gestirnir sem sáu um að skora mörkin. Steinar Veigarsson skoraði strax í byrjun lotunnar og minnkaði muninn í 4-3 og það var svo Daniel Kolnar sem jafnaði 4-4 á 15 mín lotunnar.
Næstu fimm mínútur voru þær einu í leiknum þar sem SR voru sterkari aðilinn en SA hélt út og framlenging varð staðreyndin.
Fljótlega í framlengingu skoraði Ingvar Þ. Jónsson sigurmark SA og kom það af stuttu færi eftir dómarakast. Heimamenn fögnuðu sigrinum að vonum ákaft ásamt gríðarlega fjölmennri stuðningssveit sinni á pöllunum, sem voru þétt setnir í kvöld.
SR leiðir einvígi liðanna 2-1 og fer næsti leikur fram í Reykjavík á morgun. Þrjá sigra þarf til að verða meistari.