"SA eiga ekki að komast upp með að sitja á kantinum og naga neglurnar"
Stjórn og trúnaðarmannaráð stéttarfélagsins Framsýnar gagnrýna Samtök atvinnulífsins harðlega fyrir áhugaleysi um vinnustaðaeftirlit. Á sama tíma og kjarasamningsbrot og skattaundanskot komi ítrekað upp sér í lagi í ferðaþjónustu og byggingariðnaði, sé þögn samtakanna ærandi.
Undanfarna mánuði hefur Alþýðusamband Íslands og aðildarsamtök þess unnið að sérstöku átaki gegn svartri atvinnustarfssemi. Markmið þess er að verja kjör og réttindi á íslenskum vinnumarkaði fyrir allt launafólk. Hert vinnustaðaeftirlit og aukin samvinna við ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið og lögregluna hafi skilað miklum árangri. Þetta kemur fram í ályktun sem Framsýn birtir á vef sínum.
Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar kom saman til fundar í gærkvöldi, og taldi fundurinn ástæðu til að senda frá sér ályktun um málið „enda eiga Samtök atvinnulífsins ekki að komast upp með að sitja á kantinum og naga neglurnar meðan aðrir verjast áhlaupi fyrirtækja sem ætla sér ekki að virða leikreglur á vinnumarkaði,“ segir á vef Framsýnar. /epe.
Ályktunina má lesa í heild sinni hér að neðan:
Ályktun
Um áhugaleysi Samtaka Atvinnulífsins fyrir vinnustaðaeftirliti
Undanfarna mánuði hafa Alþýðusamband Íslands og aðildarsamtök þess unnið að sérstöku átaki gegn svartri atvinnustarfssemi og er markmið átaksins að verja kjör og réttindi á íslenskum vinnumarkaði fyrir allt launafólk. Hert eftirlit á vinnustöðum og aukin samvinna við Ríkisskattstjóra, Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitið og lögregluna hafa skilað miklum árangri.
Stéttarfélagið Framsýn fær mikla hvatningu varðandi hert vinnustaðaeftirlit frá stjórnendum fyrirtækja sem búa við það að vera í samkeppni við önnur fyrirtæki sem ekki fara að lögum.
Þögn Samtaka Atvinnulífsins er ærandi á sama tíma og kjarasamningsbrot og skattaundanskot, ekki síst í ferðaþjónustu og byggingariðnaði, koma aftur og aftur upp á borð eftirlitsmanna og eru nær daglega í fréttum fjölmiðla.
Framsýn, stéttarfélag skorar á Samtök Atvinnulífsins að axla ábyrgð og taka virkan þátt í verkefninu og álítur það ekki sæmandi samtökum sem ætlað er að gæta hagsmuna ábyrgra fyrirtækja í atvinnurekstri að segja PASS og sitja hjá í svo veigamiklum aðgerðum.