Úrslitakeppnin í N1-deild karla í handknattleik hefst á þriðjudaginn í næstu viku, þann 17. apríl, er FH og Akureyri mætast í Kaplakrika í fyrsta leik í undanúrslitum. Í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast við Haukar og HK og fyrsti leikur hjá þeim verður í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði miðvikudaginn 18. apríl. Vikudagur fékk Rúnar Sigtryggsson, fyrrum landsliðsmann í handknattleik og þjálfara Akureyrar, til þess að spá í spilin fyrir rimmu FH og Akureyrar, en vinna þarf þrjá leiki til þess að fara áfram í úrslit.
Ég held að þessi undanúrslit hafi alla burði til þess að fara í fimm leiki. Akureyri er búið að vera á meira flugi upp á síðkastið í deildinni, en á móti kemur að FH hefur verið að glíma lengi við þrálát meiðsli í sínum leikmannahóp án þess þó að hafa eitthvað sérstaklega hátt um það. En lið Akureyrar hefur betri handboltamenn á pappírnum en FH og því sigurstranglegra," segir Rúnar.
Finna má ítarlegra spjall við Rúnar um einvígi FH og Akureyrar í Vikudegi sem kemur út í dag.