Rúmlega 80 starfsmenn SAk í verkfall

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri.

Ríflega þrjú þúsund félagar BHM verða í fjögurra klukkustunda allsherjarverkfalli í dag. Langflestir þeirra, eða 2.343, fara í verkfall klukkan tólf á hádegi en hátt í sex hundruð manns eru þegar í ótímabundnu verkfalli.

Verkfallið mun hafa verulega áhrif á starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) en samkvæmt upplýsingum Vikudags verða 80 manns í verkfalli í dag, þar á meðal eru ljósmæður, lífeindafræðingar, sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfarar.

Á heimasíðu sjúkrahússins segir að lífeindafræðingar séu í ótímabundnu verkfalli frá kl. 08:00 – 12:00 alla daga en til kl. 16:00 í dag. Á meðan verkfalli lífeindafræðinga stendur verður einungis bráðatilfellum sinnt eins og um helgarstarfsemi væri að ræða 

Ljósmæður fóru í verkfall á miðnætti og stendur þeirra verkfall yfir í sólarhring í senn alla mánudaga og fimmtudaga þar til samningar nást. Á meðan verkfalli ljósmæðra stendur verður þjónusta sem hér segir:

 

  • Öllum konum í fæðingu verður sinnt samkvæmt venju svo og öllum bráðatilfellum.
  • Konum sem eiga tíma í áhættumæðravernd verður sinnt af fæðingarlæknum og kölluð til ljósmóðir ef ástæða er til að tryggja öryggi móður og/eða barns.
  • Ómskoðunum verður sinnt samkvæmt venju af fæðingarlæknum.
  • Valkeisaraskurðir verða ekki framkvæmdir á verkfallsdögum.
  • Valkvæðar gangsetningar verða ekki framkvæmdar á verkfallsdögum. 

 

Ljóst er að verkföllin raska starfsemi sjúkrahússins verulega með tilheyrandi óþægindum fyrir sjúklinga. Almenna reglan er sú að að öllum bráðatilfellum er sinnt á boðuðum verkfallsdögum og áhersla lögð á að tryggja öryggi sjúklinga.


Nýjast