Rúmlega 200 nýnemar í hvorum framhaldsskólanna
Reikna má með að um 1.400 nemendur hefji nám í VMA í haust og er það heldur meira en undanfarin ár, að sögn Hjalta Jóns Sveinssonar skólameistara. Hann segir vel sótt í allar deildir skólans að undanskilinni byggingardeildinni sem enn virðist sitja á hakanum. „Hún er eitthvað sem ungt fólk leggur ekki í núna," segir Hjalti Jón. Aðspurður um hvort byggingadeildin sé jafnvel í hættu vegna áhugaleysis nemenda segir Hjalti svo ekki vera. „Þetta kemur alltaf aftur," segir hann.
Vinsældakeppni hjá framhaldsskólum
Mikið hefur verið fjallað um svimandi háar innritunartölur í framhaldsskóla í fréttum undanfarið þar sem skólum er raðað upp eftir vinsældum hjá nýnemum. Jón Már Héðinsson skólameistari MA segir þessa umræðu vera á villigötum. „Menn eru að keppast við það að blása út innritunartölurnar eins og mögulegt er í framhaldsskólunum og þetta er farið snúast um vinsældakeppni," segir Jón Már. Nýnemar geta sótt um tvo skóla þar sem annar er hafður til vara og getur það því gefið skakka mynd um hvaða skóla nemendur sækja helst í.
„Það er búið að vera aðalmálið þessa dagana hvað sóttu margir um en ekki hvernig nemendur eru að standa sig sem þarna koma. Mér finnst þessir skólar ekki hafa verið að segja nemendum satt og rétt frá um hverjir eiga raunverulega möguleika á að komast inn í skólann. Ef skólar ætla að taka inn nemendur sem hafa einkunina 8 eða yfir í meðaleinkunn að þá eiga skólarnir að segja frá því. Fyrir aðra þýðir þá ekkert að sækja um," segir Jón. „ Við höfum lagt áherslu á það hér að lofa ekki þeim skólavist sem við ætlum ekki að taka." Inntöku nemenda er lokið. Teknir voru inn í fyrsta bekk 215 nemendur sem lokið hafa 10. bekk og að auki 18 nemendur á hraðlínu, beint úr 9. bekk grunnskóla. Brottfall nemenda í 1. bekk var í ár minna en oft áður og því verða nemendur í 2. bekk margir, rétt rúmlega 200. Alls er fyrirsjáanlegt að í haust verði nemendur MA á bilinu 750-760 talsins, álíka margir og á því skólaári sem nýlokið er.