Rólegt á hálendinu yfir verslunarmannahelgina

Umferð hefur gengið  vel um verslunarmannahelgina á hálendinu að sögn hálendisvaktar Slysavarnarfélagsins  Landsbjargar.  Svo virðist sem minni umferð sé núna á hálendinu en hefur verið undanfarnar verslunarmannahelgar.  Ekki  er gott að segja hvað veldur en veðrið er búið að vera frekar  blautt og kalt á hálendinu en það á örugglega sinn þátt í þessari fækkun.  

Hálendisvaktin felur í sér að í tæpa tvo mánuði á hverju sumri eru björgunarsveitir til taks á fjórum stöðum á hálendinu; Kjalvegi, að Fjallabaki, á Sprengisandsleið og á svæðinu norðan Vatnajökuls. Auk þess að sinna formlegum aðstoðarbeiðnum og útköllum eru sveitirnar ferðamönnunum innan handar á ýmsan máta er tengist öryggi og slysavörnum og er þetta í sjötta skiptið í sumar sem hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar er keyrð. Þess má geta að öll þessi vinna er unnin í sjálfboðavinnu.

Meðfylgjandi myndir eru frá  Björgunarsveitinni  Núpar frá Kóparskeri en hún er með vaktina fyrir norðan Vatnajökul þessa vikuna. Myndirnar eru frá því þegar sveitin aðstoðaði  ítölsk hjón sem höfðu verið að víkja fyrir bíl og kanturinn gaf sig og afturendi bílsins féll niður og rann á stórt hraungrýti sem varnaði því að bílinn ylti alveg á hliðina. Bíllinn var spilaður upp á veg án þess að hann yrði fyrir frekari skemmdum.

Nýjast