Röðin er komin að Eyjafirði

Stjórn Hestamannafélagsins Funa  mun á næstu dögum funda með hagsmunaaðilum og fara yfir fyrirliggjandi umsókn um Landsmót hestamanna á Melgerðismelum. “Framgangur málsins mun væntanlega skýrast að loknum sameiginlegum fundi í næstu viku,” segir Brynjar Skúlason gjaldkeri Hestamannafélagsins Funa í Eyjafjarðarsveit, en félagið hefur sótt um að halda Landsmót á Melgerðismelum árið 2014.

Í bréfi sem félagið sendi stjórn Landssambands hestamannafélaga í lok janúar árið 2009 bauð það Melgerðismela fram sem landsmótsstað.„Teljum við að ef gæta eigi jafnræðis og félagslegs réttlætis við val á landsmótsstað þá sé komið að Melgerðismelum.,“ segir í bréfinu. Að mati forsvarsmanna félagsins er það grundvallaratriði að dreifa landsmótum um landið eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni, enda gegni þau mikilvægu hlutverki í að kynna landið og breiða út  hestamennsku sem víðast. Þá er bent á að það viðhorf sé ráðandi í nær öllum öðrum íþróttagreinum, að dreifa eigi mótum um landið, m.a. landsmótum ungmennafélaga. Þannig viðhaldist samkeppni milli staða sem stuðli að framförum og framþróun í mótahaldi.

Á sameiginlegum félagsfundi hestamannafélaganna Funa og Léttis á Akureyri um framtíð landsmótshalds í Eyjafirði  var samþykkt yfirlýsing  þar sem fram kemur það álit félaganna að röðin sé komin að Eyjafirði og að næsta landsmót sem haldið verður á Norðurlandi skuli vera þar. Flestir sem til máls tóku á fundinum töldu seinagang í ákvarðanatöku um landsmótsstað sem og óvissu um framtíðarskipulag Landsmóta gera félögunum erfitt fyrir. Vonuðust menn eftir að sátt myndi nást á landsvísu um málið í heild og því komið í farveg til lengri tíma. Þórgnýr Dýrfjörð frá Akureyrarstofu hélt stutta tölu um mikilvægi Landsmóts hestamanna fyrir byggðarlagið og lýsti yfir vilja til að koma að hverskonar viðburðum tengdum hestum í firðinum.

“Landsmót hestamanna er stórviðburður fyrir Eyjafjörð ef af verður og er ekkert einkamál hestamanna á svæðinu.  Reikna má með að yfir 10 þúsund  manns muni sækja mótið og dvelja á svæðinu allt upp í vikutíma á meðan á því stendur.  Þetta er því ekki síður hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuaðila svæðisins og ýmis félagasamtök sem hafa af þessu beina hagsmuni.  Auk þess hafa sveitarfélögin af þessu miklar veltutengdar tekjur,” segir Brynjar.

Aðstaða á Melgerðismelum er góð og þar hefur undanfarin ár mikið verið byggt upp, en samkvæmt því sem Funamenn áætla gæti kostnaður við að undirbúa svæðið fyrir landsmót numið um 25 milljónum króna. Allar nýframkvæmdir á svæðinu munu nýtast mótssvæðinu á Melgerðismelum til framtíðar en ekki einungis vegna landsmótshalds.

Fulltrúar félaganna tveggja munu á næstu dögum fara yfir málið með sveitarfélögum á svæðinu sem og fulltrúum frá Landssambandi hestamanna auk þess að kynna málið fyrir stjórnum annarra hestamannafélaga í Eyjafirði enda um að ræða viðburð sem er samstarfsverkefni margra.  

Nýjast