Í kvöld kl. 20.00 verður haldin í fyrsta sinn á Akureyri, fluguveiði kvikmyndahátíð undir nafninu RISE. Hátíðin er alþjóðleg og samtímis því að vera haldin á Íslandi, bæði í Reykjavík og á Akureyri, eru sýningar í öllum stærstu borgum Evrópu. Hátíðin er til þess fallin að gera svokölluðum ævintýra fluguveiðikvikmyndum hátt undir höfði en enska skilgreiningin er; adventure driven fly fishing films. Þessi flokkur kvikmynda vex hratt og úrvalið verður alltaf meira og meira ásamt því að kvikmyndagerðarmennirnir verða alltaf betri og betri í því sem þeir gera. Aðalsprauta hátíðarinnar er Nick Reygaert kvikmyndagerðarmaður búsettur á Nýja Sjálandi. Nick er kannski þekktastur hér á landi fyrir mynd sem hann tók upp á Íslandi og ber nafnið; The Source Ísland. Sú mynd var sú þriðja og síðasta í The Source þríleik sem sýndi veiði á Nýja Sjálandi, Tasmnaníu og Íslandi. Sýningin á Akureyri í kvöld verður á Sportvitanum við Strandgötu. Miðasala fer fram á heimasíðu Stangveiðifélags Akureyrar: www.svak.is