Ríkisútvarpið hættir svæðisbundnum útsendingum

Ríkisútvarpið hefur ákveðið að hætta svæðisbundnum útsendingum RÚV á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði og skera niður í starfseminni á Akureyri. Þá hefur 21 starfsmanni RÚV verið sagt upp og samningum við 23 verktaka verið rift. Alls hverfa því 45 starfsmenn frá RÚV.  

Óðinn Jónsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins segir á mbl.is, að af fréttasviðinu hverfi alls fimmtán manns sem sinni fjórtán stöðugildum og að beinar uppsagnir séu 12 talsins. Hann segir ennfremur að harkalegasti niðurskurðurinn verði í íþróttafréttum, en þar er bæði sagt upp fréttamönnum og tæknifólki. „Við lítum ekki á þær sem okkar innstu kjarnastarfsemi. Það er auðvitað umdeilanlegt og menn geta haft ýmsar skoðanir á því, en ég valdi þessa leið," segir hann í samtali við mbl.is. „Þá er niðurskurður á vaktinni hér, í veffréttunum og á svæðisstöðvunum, en reyndar bara á Akureyri," segir Óðinn. Þegar menn neyðist til þess að skera niður þurfi að forgangsraða. „Mín forgangsröðun gengur út á að styrkja okkur í innlendum fréttum á þessum tímum," segir hann. Innlendu fréttirnar verði ekki veiktar með beinum hætti, nema helst á vefnum. Hann segir ekki hægt að líta svo á að verið sé allt að því að leggja svæðisútvörpin niður með sparnaðaraðgerðunum. „Nei, þvert á móti," segir Óðinn. Verið sé að hætta með svæðisbundnar útsendingar, en fólkinu sem verði eftir verði ætlað að setja inn fréttir á landsrásir RÚV. „Áætlunin gengur út á það að það muni styrkja innlenda fréttahlutann," segir Óðinn m.a. í samtali við mbl.is.

Endurskoðuð rekstraráætlun RÚV var kynnt á starfsmannafundi í dag. Samkvæmt henni verður skorið niður um 550 milljónir króna í rekstrinum. Ákvörðun var tekin um hlutfallslegan niðurskurð á öllum sviðum en hann bitnar harðast á fréttasviði þar sem launakostnaður vegur mun þyngra þar en á öðrum sviðum. Að auki á að ná fram 150 milljóna króna sparnaði með tímabundinni launalækkun. Um er að ræða tímabundna ráðstöfun, til 12 mánaða eins og kynnt var á starfsmannafundi. Helstu yfirmenn, þeir sem hæst hafa launin, taka á sig 8-11% launalækkun. Þeir sem þar koma á eftir í launum sæta 6-7% launalækkun en sá hópur er langfjölmennastur. Þeir sem lægst hafa launin sleppa við launaskerðingu. Miðað er við að laun verði lækkuð frá og með næstu áramótum. Með þessu eiga að sparast 150 milljónir króna á ársgrundvelli. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu ohf. var mikill halli á rekstri félagsins  rekstrarárið 1. september 2007 til 31. ágúst 2008. Tap tímabilsins var 739,5 milljónir þar af má rekja um 600 milljónir til þess að verðbólga sé langt umfram áætlanir.  Tap undanfarinna tveggja ára valdi því að eigið fé sé næstum upp urið og stendur nú í 31 milljón króna, segir ennfremur á mbl.is. 

Nýjast