Gylfi segir mörg þeirra mála í góðum farvegi og ekki mikill skoðanamunur, frekar deili menn um útfærslur og fjármögnun. Þannig sé t.d. lítill ágreiningur um menntunarúrræði atvinnulausra og greiðsluskylda vegna Starfsendurhæfingarsjóðs er í góðum farvegi á meðan meiri ágreiningur er t.d. varðandi þá kröfu aðila vinnumarkaðarins að fá að axla meiri ábyrgð á þjónustu við atvinnulausa og svo atvinnumálin sem eru stóri ásteytingarsteinninn.
„Það er alveg ljóst að það þarf að auka fjárfestingar í atvinnulífinu. Við viljum að ríkisstjórnin skuldbindi sig til að standa fyrir ákveðinni innspýtingu í hagkerfið á næstu þremur árum. Það geta verið x margir milljarðar á ári eða ákveðið hlutfall af landsframleiðslu. Ríkisstjórnin talar um að margir hafi áhuga á að koma hingað með fjárfestingar. Við þurfum hins vegar ákvarðanir. Það verður ekki hægt að hækka laun í landinu á væntingunum einum saman. Og við þurfum að vita hvað ríkisstjórnin ætlar sér í virkjanamálum. Það er ljóst að atvinnumálin verða þyngsta málið sem snýr að stjórnvöldum," segir Gylfi. „Við lögðum áherslu á það í morgun að tíminn væri að hlaupa frá okkur ef það á að klára samninga fyrir næstu útborgun launa. Málin verða að komast fyrir alvöru á hreyfingu í næstu viku," segir forseti Alþýðusambandsins á heimasíðunni.