Ríkisstjórnin beiti sér fyrir jöfnun lífskjara á milli landsbyggðar og höfuðborgar

Landsfundur Vinstri grænna sem haldinn var í Hofi á Akureyri um helgina, skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir jöfnun lífskjara á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Er sérstaklega brýnt að jafna flutningskostnað fyrirtækja á landsbyggðinni og þeirra sem starfa á höfuðborgarsvæðinu, fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og tryggja starfsemi í heilbrigðis- og menntakerfi á landinu öllu, samhliða mikilli uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Tryggja þarf að sú uppbygging komi ekki niður á störfum á landsbyggðinni. Standa þarf að baki öflugu menningarstarfi á landsbyggðinni. Tryggja gæði og öryggi samgangna milli og innan byggðalaga. Við endurskipulagningu fjármálakerfisins þarf sérstaklega að huga að og styðja við bankastafsemi sem starfar á samfélagslegum grunni. Þá þarf að tryggja að fyrirtæki á landsbyggðinni sitji við sama borð og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu varðandi úrvinnslu skulda og endurskipulagningu lána, bæði hvað varðar biðtíma sem og úrvinnsluna í heild.

Ályktun um Reykjavíkurflugvöll

Landsfundur VG telur það tímaskekkju að færa innanlandsflugið af höfuðborgarsvæðinu. Það gegnir mikilvægu hlutverki fyrir landsbyggðina og eru engar forsendur til að færa starfsemina annað meðan þorri stjórnsýslu og þjónustu er í miðborg Reykjavíkur. Landsfundur VG skorar á samgönguyfirvöld að tryggja áfram reglubundið áætlunarflug milli höfuðborgar og landsbyggðar.

Öflug heilbrigðisþjónusta og heilsugæsla um land allt

Landsfundur VG ítrekar mikilvægi góðrar heilbrigðisþjónustu og heilsugæslu fyrir alla landsmenn. Sérstök áhersla er lögð á að standa vörð um þjónustuna á hinum minni heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og minnt á að öflug heilbrigðisþjónusta er ein af grunnstoðum búsetu um land allt. Fundurinn lýsir áhyggjum sínum yfir þeim mikla niðurskurði sem áfram er boðaður í heilbrigðiskerfinu og bitnar ekki síst á minni heilbrigðisstofnunum í dreifbýlinu sem sumar eru nú þegar illa leiknar. Fundurinn ítrekar ennfremur fyrri ályktanir um að bein aðkoma heimamanna að stjórnum heilbrigðisstofnana verði tryggð á nýjan leik. Landsfundur VG vill minna á að fleiri leiðir eru færar í hagræðingu í heilbrigðiskerfinu en beinn niðurskurður, þ.m.t að auka samvinnu og nýta sérstöðu hverrar stofnunar mun meira en gert er.

 

Nýjast