Ríkisendurskoðun vill ekki gera arðsemismat á Vaðlaheiðargöngum
Ríkisendurskoðun hefur beðist undan því að gera arðsemismat á Vaðlaheiðargöngum en beiðni um slíkt kom frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis nýlega. Sveinn Arason ríkisendurskoðandi telur það ekki vera lögbundið verkefni stofnunarinnar, auk þess sem hann væri vanhæfur vegna fjölskyldutengsla við Kristján Möller alþingismann en þeir eru mágar. Kristján er stjórnarmaður í Vaðlaheiðargöngum hf. Í svari Ríkisendurskoðunar segir að slíkt arðsemismat kynni að ráða úrslitum um það hvort ráðist yrði í framkvæmd við Vaðlaheiðargöng eða ekki.
Það sé hins vegar ekki lögbundið hlutverk stofnunarinnar að framkvæma slíkt mat, heldur einungis að endurskoða ríkisreikning og ársreikning ríkisaðila og að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Í svarinu kemur þó fram það mat Ríkisendurskoðunar að stjórnvöld þurfi ávallt að láta vinna ítarlega greiningu á arðsemi og áhættu kostnaðarsamra samgönguframkvæmda áður en þau ráðast í slíkar framkvæmdir. Æskilegt sé að slíkt mat sé unnið af óháðum aðila. Bendir stofnunin á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í því sambandi. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði á Alþingi fyrir helgi, að fjármálaráðuneytið hefði ákveðið að leita ti óháðs aðila til að fá fram sjálfstætt mat á reikningslegum forsendum Vaðlaheiðarganga.