Ríkið greiði pilti 31 milljón króna í bætur vegna læknamistaka

Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Íslenska ríkið þarf að greiða pilti þrjátíu og eina milljón króna í miskabætur vegna læknamistaka sem hann varð fyrir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þegar hann var ellefu ára. Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þessari niðurstöðu í gær. Drengurinn hlaut alvarlegan heilaskaða eftir að hafa fengið sýkingu í kvið árið 2004.

Móðir piltsins leitaði til heilsugæslustöðvar og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri í nóvember árið 2004, vegna þess að hann kastaði upp og kvartaði undan kviðverkjum og hita. Hann var þá ellefu ára. Hann var lagður inn á sjúkrahúsið og gerðar á honum aðgerðir vegna alvarlegrar sýkingar í kviðarholi og garnastíflu. Viku eftir að hann var lagður inn tók drengurinn að kvarta undan miklum verkjum, missti meðvitund og fór í hjartastopp. Hann fékk hjartahnoð og var haldið sofandi næstu fimm sólahringa. Þegar hann var vakinn kom í ljós að hann hafði hlotið mikinn heilaskaða. Hann er með skerta heyrn og sjón, nær engin tjáskipti við umhverfið, verulega spastískur og bundinn við hjólastól.

Landlæknir rannsakaði málið að frumkvæði spítalans, og komst að þeirri niðurstöðu að læknar hefðu ekki brugðist starfskyldum sínum. Spítalinn hafnaði því að greiða piltinum bætur. Foreldrar piltsins fengu álitsgerð frá lyfjafræðiprófessor við Háskóla Íslands, sem komst að þeirri niðurstöðu að lyfjameðferð og vökvameðferð sjúklingsins hefði ekki verið í samræmi við eðlilegar verklagsreglur. Dómkvaddir matsmenn töldu að sjúkdómstilfellið hefði verið flókið og erfitt, en meðferðin hefði ekki verið fullnægjandi. Niðurstaða dómsins var sú að mistök við lyfjagjöf og hjartahnoð, og of sein viðbrögð við endurlífgun sjúklingsins, hefðu valdið honum líkamstjóni. Starfsfólk fjórðungssjúkrahússins hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Íslenska ríkinu var því gert að greiða piltinum, sem nú er átján ára, þrjátíu og eina milljón króna í bætur. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Nýjast