Ríflega 240 íbúðir í byggingu í Naustahverfi

Ríflega 240 íbúðir eru í byggingu í Naustahverfi á Akureyri um þessar mundir, sem að sögn Péturs Bolla Jóhannessonar skipulagsstjóra, er nálægt því að vera tveggja ára skammtur hvað þörfina varðar í eðlilegu árferði. Samkvæmt Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 er gert ráð að þörfin fyrir nýjar íbúðir verði 138 á ári.  

Alls eru 18 lóðir lausar til úthlutunar í hverfinu en Pétur Bolli á ekki von á því að mörgum þeirra verði úthlutað á næstunni, sé miðað við þá stöðu sem uppi er í þjóðfélaginu í dag. "Ég vonast þó til að þeir verktakar sem standa vel taki við eignum þar sem framkvæmdir hafa stöðvast og bankarnir yfirtekið."

Skipulagsyfirvöld á Akureyri fóru í mikið öryggisátak á síðasta ári, sem staðið hefur fram á þetta ár. Send voru út fjölmörg bréf, þar sem óskað var eftir úrbótum á byggingarlóðum, að öðrum kosti yrði dagsektum beitt. Pétur Bolli segir að svörunin hafi verið mjög góð og að í 98% tilvika hafi kröfur um úrbætur verið uppfylltar.

"Að okkar mati er ástandið gott í öllu Naustahverfi hvað varðar öryggisþættina en því miður er talsverð órækt á óbyggðum lóðum sem getur verið til ama fyrir íbúðaeigendur í hverfinu," segir Pétur Bolli.

Nýjast