Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýri
Í ályktun um samgöngur í lofti, sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina, er lögð áhersla á að Reykjavíkurflugvöllur gegnir lykilhlutverki sem miðstöð sjúkra- og innanlandsflugs. Flugvellinum skal því tryggð áframhaldandi aðstaða í Vatnsmýrinni og hið fyrsta skal hefjast handa við byggingu flugstöðvar. Grunnforsenda er að þar séu reknar tvær flugbrautir til frambúðar.
Landsfundurinn leggur áherslu á að innanlandsflug verði með svipuðu sniði og verið hefur og áfram verði stutt við flugleiðir til jaðarbyggða, þó þannig að hagkvæmni sé gætt í hvívetna. Íþyngjandi reglugerðir geta orðið þess valdandi að einkaflug á Íslandi leggist af. Leita þarf lausna nú þegar.
Keflavíkurflugvöllur er miðstöð millilandaflugs á Íslandi og þarf að þróast sem slíkur. Halda þarf áfram uppbyggingu flugvallanna í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum og þróun þeirra sem varavellir Keflavíkurflugvallar og til eflingar á millilandaflugi. Rýmka þarf heimildir til að sinna millilandaflugi þar sem aðstæður leyfa á landsbyggðinni og auka þar með möguleika í ferðaþjónustu, segir í ályktun landsfundar.