Jóna Finndís Jónsdóttir sjóðstjóri kynnti fjárfestingarstefnu og nýja heimasíðu sjóðsins. Í máli Sigrúnar Bjarkar kom m.a. fram að árið 2008 fari væntanlega í sögubækurnar sem annus horriblis - eða árið hræðilega - í efnahagssögu Íslands. „Árið var í senn erfitt, viðburðarríkt og fordæmalaust í mörgu tilliti. Þær efnahagshamfarir sem gengu yfir heiminn almennt og Ísland alveg sérstaklega, með bankahruni og fjármálakreppu, höfðu mikil áhrif á alla starfsemi og afkomu sjóðsins. Hrun íslensku bankanna og fall krónunnar með tilheyrandi verðbólguskoti og erfiðleikum fyrir íslenskt atvinnulíf og heimili gerði það að verkum að mikil óvissa skapaðist um verðmæti eigna og afkoma sjóðsins var lakari en dæmi eru um áður. Ávöxtun sjóðsins gekk raunar bærilega framan af ári en fall bankanna í byrjun október hafði mikil áhrif til hins verra. Sjóðurinn hafði brugðist við versnandi horfum framan af ári með mjög ákveðinni sölu á hlutabréfum í eigu sjóðsins, til að draga úr áhættu. Í stað þess fjárfesti sjóðurinn að miklu leyti í skuldabréfum,en bankahrunið gerði það að verkum að skuldabréf banka og fyrirtækja reyndust einnig mjög áhættusamur eignaflokkur. Hafa verður í huga að skuldabréf á Íslandi hafa reynst traustar fjárfestingar, þar sem töp hafa verið sjaldgæf og ekki eru dæmi til að tjón hafi orðið við fjárfestingar í skuldabréfum banka á Íslandi fyrr en nú. Þótt stjórnendur sjóðsins hafi gert sér grein fyrir að í mikla erfiðleika stefndi í efnahagslífi íslendinga þá sáu menn ekki fyrir að allt íslenska bankakerfið myndi hrynja eins og spilaborg. Þetta hrun þurrkaði út alla ávöxtun Tryggingadeildar sjóðsins á árinu, en deildinni tókst þó að komast hjá því að tapa höfuðstól."
Innra eftirlit
Sigrún sagði einnig að búið sé að vinna að gagngerri endurskoðun á öllu innra eftirliti sjóðsins. Sú vinna var vel á veg komin fyrir bankahrun, en þeir atburðir hafa haft áhrif á þá vinnu. Sjóðnum var sett sérstök eftirlits- og hlítingarskrá, þar sem áhætta í rekstri sjóðsins er skilgreind, ásamt viðeigandi eftirlitsaðgerðum. Sett var upp sérstakt eftirlitsskipulag þar sem allar eftirlitsaðgerðir eru tíundaðar og hver ber ábyrgð á þeim." Nú eru mánaðarlega lagðar fyrir stjórn upplýsingar úr rekstri sjóðsins s.s. um ávöxtun, viðskipti, rekstur, iðgjöld, vanskil o.fl. í þeim dúr, í samræmi við reglur sjóðsins um upplýsingagjöf til stjórnar.
Ýmislegt gert
Sjóðurinn hefur brugðist við efnahagshruninu með ýmsum hætti. Vextir af sjóðfélagalánum voru lækkaðir úr 5,7% í 4,2% í tveimur áföngum, til að létta undir með sjóðfélögum og auka líkur á því að þeir standi í skilum. Einnig lækkaði sjóðurinn tímabundið dráttarvexti á vanskilum launagreiðenda til að auðvelda þeim að standa í skilum. Slík lækkun dráttarvaxta var þó háð því að gert væri upp við sjóðinn. Í máli Sigrúnar kom fram að þessum aðgerðum hefur verið vel tekið og haft mikil áhrif í þá veru að vanskil hafa ekki aukist að neinu marki, enn sem komið er.
Réttindi ekki skert
Tryggingafræðileg úttekt hefur verið gerð á stöðu Tryggingadeildar sjóðsins í árslok 2008. Tryggingafræðileg afkoma ársins var neikvæð um 16.744 millj. kr. sem fyrst og fremst má rekja til slakrar ávöxtunar á eignum sjóðsins á árinu. Tryggingafræðileg staða sjóðsins var neikvæð í árslok um 12.906 millj. kr. eða 6,9%. Neikvæð tryggingafræðileg staða deildarinnar er innan leyfilegra marka skv. lögum og því þarf ekki að skerða réttindi vegna þessarar niðurstöðu.
Ný stjórn
Nýir stjórnarmenn voru kosnir skv. samþykktum sjóðsins, endurskoðandi og tillaga stjórnar um stjórnarlaun var samþykkt með þorra greiddra atkvæða. Tillagan gerði ráð fyrir 10% lækkun frá fyrra ári. Í kjölfar ársfundar sjóðsins kom stjórn saman og skipti með sér verkum. Sigurður Hólm Freysson var kjörinn formaður stjórnar og Sigrún Björk Jakobsdóttir varaformaður. Stjórn sjóðsins skipa nú: Fyrir hönd launamanna: Sigurður Hólm Freysson formaður, Aðalsteinn Árni Baldursson og Björn Snæbjörnsson. Fyrir hönd atvinnurekenda: Sigrún Björk Jakobsdóttir, varaformaður, Anna María Kristinsdóttir og Guðrún Ingólfsdóttir. Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju.