Retro Stefson, Pálmi Gunn & Helena Eyjólfs saman á sviði
Akureyrarvaka verður haldin um þarnæstu helgi. Hápunktur hátíðarinnar verður laugardaginn 31. ágúst þegar efnt verður til litríkrar listaveislu með alþjóðlegum blæ á Ráðhústorgi, í Listagilinu og víðar um bæinn. Dagskrá laugardagsins lýkur með útitónleikum hljómsveitarinnar Retro Stefson og gesta á risasviði neðst í Listagilinu.
Yfirskrift tónleikanna er Retro Stefson Karnival. Hljómsveitin vinsæla flytur þar eigin lög en klæðir einnig alkunna smelli frá fyrri tíma í Retro Stefson búning og fær í því skyni til liðs við sig m.a. söngvarana Pálma Gunnarsson og Helenu Eyjólfsdóttur.
Aðrir hápunktar dagsins eru Vísindasetur í Rósenborg þar sem ýmsar furður verða kynntar ásamt því að sérfræðingar útskýra sprengingar í Vaðlaheiðargöngum. Boðið verður upp á forvitnilega eldhúsrétti frá fjölda þjóðlanda í Menningarhúsinu Hofi. Þar verða einnig kynntir barnaleikir frá öllum heimshornum og efnt til handverksmarkaðar. Listagilið verður iðandi af lífi allan laugardaginn með tónlist, listsýningum, matarmarkaði, listmálurum að störfum og fleiru.