Dr. Björn Gunnarsson, rektor RES Orkuskólans, var í Moskvu dagana 11.-13. nóvember sl. og átti fundi með forsvarsmönnum MGIMO háskólans. Fundunum var komið á að tilstuðlan Rússneska sendiráðsins í Reykjavík en sendiherra Rússa, Andrey. V. Tsyganov, heimsótti RES Orkuskólann þann 26. maí sl. og hóf í framhaldi af því undirbúning þessa verkefnis.
„Ég sat fundi með prófessor Valery Salygin og aðstoðarfólki hans, en hann er forstöðumaður Alþjóða orkusviðs MGIMO háskólans og mjög virtur vísindamaður í Rússlandi. Við handsöluðum samstarfssamninginn og þessa dagana er teymi á vegum MGIMO háskólans að útfæra hann nánar. Við munum síðan skrifa undir formlegan samning á allra næstu dögum," segir Björn.
Tíu nemendur fyrsta árið og síðan a.m.k. 20 næstu árin
Gert er ráð fyrir að fyrsta árið verði 10 rússneskir nemendur í meistaranáminu og að sá fjöldi tvöfaldist árið eftir. Um er að ræða langtímasamning. Einnig mun MGIMO háskólinn beita sér fyrir því að fá verkfræðinga frá tækniháskólum í Moskvu til að taka þátt í hinu sameiginlega meistaranámi og að þeir verði einnig styrktir af þarlendum orkufyrirtækjum.
MGIMO er einn dýrasti og virtasti háskóli Rússlands, eins konar „Harvard" þeirra Rússa á öllum helstu fræðasviðum, að sögn Björns. Inntökuskilyrðin eru mjög ströng og verða nemendur að þreyta erfitt inntökupróf til að fá skólavist. Skólinn hefur alþjóðlegt yfirbragð því um 20% nemenda eru af erlendu bergi brotin, margir kennaranna koma einnig erlendis frá og stór hluti kennslunnar fer fram á ensku.
Mikil viðurkenning
„Við höfum átt gott samstarf við MGIMO háskólann allt frá árinu 2007. Þessi samningur sýnir svo ekki verður um villst að Rússar hafa mikinn áhuga á að vinna með okkur Íslendingum á sviði orkumála. Þeir hafa mikla þekkingu á vinnslu og nýtingu jarðefnaeldsneytis og geta kennt okkur margt á því sviði en á hinn bóginn vilja þeir læra af okkur um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Samstarfið mun því koma báðum þjóðum til góða og er mikil viðurkenning á því starfi sem unnið hefur verið innan veggja RES Orkuskólans í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Að auki gerbreytir þessi góði samningur rekstrargrundvelli RES Orkuskólans þannig að það er bjart framundan," segir Björn Gunnarsson.