Rennibrautirnar vígðar á morgun

Eflaust munu margir fjölmenna í Sundlaug Akureyrar á morgun þegar rennibrautirnar verða teknar í not…
Eflaust munu margir fjölmenna í Sundlaug Akureyrar á morgun þegar rennibrautirnar verða teknar í notkun. Mynd/Ólafur Arnar Pálsson

Á morgun, fimmtudaginn 13. júlí, verður blásið til hátíðar í Sundlaug Akureyrar í tilefni þess að þá verða þrjár nýjar vatnsrennibrautir teknar í notkun. Framkvæmdir vegna breytinga á sundlaugasvæðinu og uppsetningar nýju lauganna hófust í október sl. og hafa litríkar brautirnar varla farið fram hjá nokkrum manni sem átt hefur leið um Akureyri síðustu mánuðina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akureyrarbæ.

Í tilefni af vígslu brautanna verður opið í Sundlaug Akureyrar til miðnættis fimmtudaginn 13. júlí og föstudaginn 14. júlí. Frítt verður í sund á fimmtudeginum. Áður en öllum sem áhuga hafa verður hleypt í nýju vatnsrennibrautirnar, fer fram stutt athöfn sem hefst kl. 14 en þar verður meðal annars tilkynnt um sigurvegara í samkeppni um nöfn á brautirnar þrjár. Þeir sem þóttu koma með bestu tillögurnar, og voru dregnir úr hópi þeirra sem lögðu fram sömu tillögur, fá að renna sér fyrstir í þá braut sem þeir nefndu.

Rennibrautirnar eru sem áður segir þrjár. Hæð á uppgönguturni er 14 metrar. Þvermál röranna er 90-120 sm og heildarlengd þeirra er um 135 metrar.

Nýjast