Rennibrautirnar í Sundlaug Akureyrar verða lokaðar vegna framkvæmda í eina viku eða fram til miðvikudagsins 20. sepember. Greint er frá þessu á Facebook-síðu Sundlaugarinnar. Enn á eftir að klára framkvæmdir á endurbótum við Sundlaug Akureyrar og var áætlað að þeim myndi ljúka í haust.
Rennibrautirnar hafa notið mikilla vinsælda eftir að þær voru opnaðar um miðjan júlí. Eins og Vikudagur greindi nýlega frá hefur sundlaugargestum fjölgað um 50% frá því á sama tíma í fyrra þá ríflega tvo mánuði sem rennibrautirnar hafa verið opnar. Fjölgaði sundferðum um u.þ.b. 26.000 ferðir þennan tíma.