Á síðustu tuttugu starfsárum Háskólans á Akureyri (HA)hefur nemendafjöldi fimmfaldast á meðan starfsmannafjöldi hefur aðeins tvöfaldast.
Á ársfundi HA sem fram fór í gær kom fram að háskólinn er hröðum skrefum að nálgast takmarkið um 2.500 nemendur sem skólinn hefur sett sér. Að sama skapi hefur akademísku starfsfólki skólans ekki fjölgað jafn hratt.
Einn af mælikvörðum um gæði í háskólastarfi er fjöldi nemenda á hvern starfsmann. Í þeim löndum og háskólum sem íslensku háskólarnir vilja bera sig saman við er almennt viðmið að það séu 8–10 nemendur á hvern akademískan starfsmann. Við Háskólann á Akureyri eru nú u.þ.b. 14 nemendur á hvern akademískan starfsmann. Til að standast þessi alþjóðlegu viðmið og geta veitt persónulega þjónustu þarf HA því að bæta við sig starfsfólki án þess að það leiði til aukins nemendafjölda.
Á fundinum í gær kom fram að nú væru 194 starfsmenn að sinna samtals 171 ársverki við skólann og þar af eru u.þ.b. 110 akademískir starfsmenn. „Við höfum haldið rekstrinum réttu megin við núllið á erfiðum tímum. Nú er komið að tímamótum í rekstrinum þar sem ríkisframlög standa í stað að raunvirði á meðan fjöldi nemenda er á hraðri uppleið og starfsmannafjöldi stendur í stað,“ sagði Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Einnig kom fram í máli Eyjólfs að ef Háskólinn á Akureyri eigi að geta tekið við fleiri nemendum þá þurfi aukið fé úr ráðuneytinu inn í skólann. „Í dag erum við að fá greitt fyrir hvert nemendaígildi og HA er kominn fram yfir þá tölu,“ sagði Eyjólfur.
Eyjólfur sagði það hljóta að vera eðlilega kröfu að fá skýr svör frá stjórnvöldum um hver framtíðar stefna þeirra væri fyrir íslenska háskólakerfið. „Við erum ekki að tala um aukið fjármagn til að auka verulega við nemendafjöldann heldur til að viðhalda gæðum námsins og geta veitt eðlilega þjónustu sem hefur setið á hakanum í allt of langan tíma,“ sagði Eyjólfur Guðmundsson, rektor.