Rektor HA segir sóttvörnum fylgt og áhættan sé í lágmarki

Eyjólfur Guðmundsson rektor við Háskólann á Akureyri.
Eyjólfur Guðmundsson rektor við Háskólann á Akureyri.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir að skólinn starfi innan reglna um sóttvarnir og vinni samkvæmt fyrirmælum almannavarna og leiðbeiningum menntamálaráðuneytisins, ásamt reglugerð heilbrigðisráðherra um starfsemi háskóla á sóttvarnartímum. Þetta segir í bréfi rektors til nemenda skólans vegna óánægju stúdenta um að mæta í skólann í lokapróf eins og greint var frá í morgun.

Í bréfi stúdenta kom fram að sú ákvörðun að öllum nemendum í áfanganum Vinnulag í háskólanámi sé skylt að mæta á prófstað við lokapróf teljist ekki vera í samræmi við þær aðgerðir sem nú eru í gildi vegna aðstæðna í samfélaginu. „Við teljum að það sé óábyrgt að halda lokapróf með þessum hætti í áfanganum sökum þess hversu margir nemendur eru skráðir í áfangann en þegar þetta er skrifað eru nemendur 739 talsins samkvæmt Uglu," sagði í bréfinu.

Rektor HA segir að upplýsingar um fyrirkomulag prófa hafi verið gefnar út 2. nóv. þar sem fram kom að öll námskeið misserisins yrðu heimapróf fyrir utan þau sem teljast samkeppnispróf eða þar sem fjöldatakmarkanir gilda.

 „Þau próf verða haldin á prófstöðum HA og eru í samræmi við reglugerð ráðuneytisins en markmiðið er fyrst og fremst að veita stúdentum tækifæri til að ljúka námskeiðum haustmisseris og halda námi sínu áfram á nýju ári.  Sú aðgerð að leggja prófið fyrir stúdenta ýmist fyrir eða eftir hádegi á prófdegi er hluti af sóttvarnarviðbrögðum háskólans og treystum við því að stúdentar virði það með því að miðla ekki upplýsingum um prófið fyrr en því er að fullu lokið.

Stúdentar í VIH0106 tilheyra ekki allir þeim hópi sem er í samkeppni en því miður er ekki hægt að leggja fyrir þá annað námsmat í þessu sama námskeiði þar sem slíkt væri brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og væri slík niðurstaða því kæranleg samkvæmt því. Þá eru samkeppnispróf mikilvægur áfangi fyrir þá nemendur sem í slíkum prófum sitja og hefur niðurstaða þeirra mikil áhrif á framtíð viðkomandi einstaklinga. Því verður að tryggja að allir nemendur hafi samskonar aðgengi að prófstað og sitji undir sömu fyrirmælum og eftirfylgni. Því miður hefur ekki verið unnt að finna leið sem bæði stenst stjórnsýslulög og er tæknilega og mannauðslega framkvæmanleg í jafn stóru námsskeiði og vinnulagið er.”

Í bréfi stúdenta til skólayfirvalda var óskað eftir því að sú ákvörðun að láta nemendur mæta í skólann í lokapróf yrði endurmetið og að stjórnendur Háskólans á Akureyri finni lausn á þessu máli í samráði við nemendur með það að leiðarljósi að hagsmuna allra nemenda sé gætt.

Segir í svari rektors að búið sé að fara yfir málið með umsjónarkennara, sviðsforseta, prófstjóra og lögfræðingi skólans. Allar þær tillögur sem komið hafa frá nemendum hafa verið ræddar. Niðurstaðan úr þeirri vinnu er að ekki er unnt að breyta framkvæmd lokaprófs í vinnulagi.

„Það ástand sem við búum við er okkur öllum sannarlega erfitt en það leggst líka misþungt á hvert og eitt okkar. Á sama tíma þurfum við að lifa í Kóvinu og taka eitt skref í einu í þeim verkefnum sem liggja frammi fyrir okkur. Sem rektor skiptir það mig mjög miklu máli að öryggi nemenda og starfsfólks sé tryggt á meðan að við göngum saman í gegnum Kóvið. Ég hef því fullvissað mig um að sú leið sem farin verður við framkvæmd prófsins fellur algerlega innan allra ákvæða um sóttvarnir eins og slíkt liggur fyrir í dag og er eins áhættulítil og mögulegt er fyrir alla aðila," segir í bréfi rektors HA.


Athugasemdir

Nýjast