Rekstur Norðurorku viðunandi á árinu 2020

Norðurorka.
Norðurorka.

Rekstur Norðurorku var viðunandi á árinu 2020. Ársvelta samstæðunnar var um 4 milljarðar króna. Hagnaður ársins var tæplega 207 milljónir króna eftir skatta og eigið fé 12,4 milljarðar króna. Þetta kom fram á aðalfundi Norðurorku í gær en þar var ákveðið að greiða hluthöfum 15% arð af hlutafé eða 127 milljónir króna.

Eigendur félagsins eru sex sveitarfélög, Akureyrarbær, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur og Þingeyjarsveit.

Á árinu var tekinn í notkun nýr áfangi í aðveitulögn hitaveitu frá Hjalteyri/Arnarnesi þ.e. áfanginn frá Ósi í Hörgársveit að Skjaldarvík. Næsti áfangi verkefnisins er bygging nýrrar dælustöðvar og loftskilju á Arnarnesi en áætlanir gera ráð fyrir verklokum þess áfanga vorið 2022. Framkvæmdum við byggingu hreinsistöðvar fráveitu við Sandgerðisbót lauk síðla árs 2020 og var hún tekin í notkun í beinu framhaldi. Þar með hefur stórum áfanga verið náð, þ.e. að grófhreinsa fráveituvatn frá Akureyri áður en því er dælt út í sjó, verkefni sem hófst 1991 með þeirri framtíðarsýn sem nú hefur gengið eftir. Verkefni liðinna ára hafa verið stór og verða áfram, einkum í hitaveitu. Toppnum er þó náð og nú dregur úr fjárfestingaþörf. Gert er ráð fyrir að fjárhagur félagsins nái jafnvægi árið 2023 og þá getu til að greiða niður lán vegna fjárfestinga liðinna ára.

Í stjórn Norðurorku voru kjörin þau Eva Hrund Einarsdóttir, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Hlynur Jóhannsson og Ingibjörg Ólöf Isaksen. Í varastjórn voru kjörin, Gunnfríður Hreiðarsdóttir, Hannes Karlsson, Hilda Jana Gísladóttir, Víðir Benediktsson og Þórhallur Jónsson.

 


Athugasemdir

Nýjast