Rekstur Menningarfélagsins Hofs gekk vel á fyrsta starfsári
Rekstur Menningarfélagsins Hofs gekk vel á fyrsta starfsári en aðalfundur félagsins var haldinn nýlega. Karl Frímannsson formaður stjórnar segir að reksturinn hafi gengið mun betur en áætlanir gerðu ráð fyrir og að stjórnin sé mjög sátt við útkomuna. Starfsárið er frá 1. ágúst í fyrra til 31. júlí í ár og var rekstrarafgangurinn 14 milljónir króna.
Það er ætlast til þess að reksturinn standi undir sér og því ágægjulegt að það gerist á fyrsta ári. Rekstararafgangurinn nýtist starfseminni á komandi árum og leiðir vonandi til þess að framlög til Hofs þurfi, í það minnsta, ekki að hækka. Í svona miklum og viðkvæmum rekstri þarf félagið að eiga rekstrarsjóð. Ekki má mikið útaf bregða en búast má við að næstu tvö árin verði prófsteinn á það hvernig til tekst með rekstur Hofs með þessu sniði.
Karl segir að þetta sé mun betri afkoma en búist var við, þar sem ekki hafi verið reiknað með rekstrarafgangi fyrr en eftir 2-3 ár. Að því leyti er þetta ánægjulegt, enda er stefnt að því að framlög Akureyrarbæjar lækki ef reksturinn skilar afgangi. Það er mjög jákvætt ef það er hægt. Akureyrarbær greiðir 54 milljónir króna til Menningarfélagsins samkvæmt samningi en að öðru leiti er starfsemin rekin fyrir sjálfsaflafé.
Talið er að um 190 þúsund manns hafi sótt viðburði í Hofi á þessu fyrsta starfsári, að sögn Karls. Fjölbreytni í viðburðum og notkun hússins er miklu meiri en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Heildarkostnaður við rekstur Hofs á síðasta var um 320 milljónir króna. Inni í þeirri tölu er kostnaður af rekstri Tónlistarskólans, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Akureyreyrarstofu. Menningarfélagið Hof er eingöngu með á sinni könnu daglegan rekstur og markaðssetningu hússins en Fasteignir Akureyrarbæjar hafa yfirumsjón með húsinu. Á fundi bæjarráðs Akureyarar nýlega var fyrsta umfjöllun um drög að samningi um stuðning Akureyrarbæjar við rekstur Menningarfélagsins Hofs árin 2012-2013. Karl segir að fram hafi komið fyrirspurnir sem fulltrúar vildu fá ítarleg svör við og því hafi afgreiðslu málsins verið frestað. Það er mjög eðlilegt að menn vilji skoða þessa hluti vel, enda er um háar fjárhæðir að ræða.