Rekstur málaflokka Akureyrarstofu stóðst ekki fjárhagsáætlun

Rekstur málaflokka Akureyrarstofu hefur ekki staðist fjárhagsáætlun 2011 að öllu leyti. Í menningarmálum brást tekjuáætlun Amtsbókasafnsins bæði vegna samdráttar í útleigu og vegna þaks sem Alþingi setti á sektargreiðslur. Áætlun og rekstur safnsins fyrir árið 2012 hefur verið aðlöguð að þessum nýja veruleika. Styrkjaáætlun gekk ekki eftir á Listasumri og þá fór framkvæmd Akureyrarvöku fram úr áætlun og þar þarf að stilla saman væntingar um umfang hátíðarhaldanna og þær fjárheimildir sem ætlaðar eru til þeirra. Að lokum voru nokkrar skekkjur í áætlun um leigugreiðslur til Fasteigna Akureyrarbæjar. Samtals voru frávik upp á um 9,5 milljónir króna, eða 2% umfram áætlun. Þetta kom fram hjá Þórgný Dýrfjörð framkvæmdastjóra Akureyrarstofu á fundi stjórnar Akureyrarstofu í vikunni.

Í atvinnumálum var stærsta einstaka frávikið í rekstri Upplýsingamiðstöðvarinnar upp á um 3,9 milljónir króna og skýrist fyrst og fremst af mun minni tekjum miðstöðvarinnar eftir flutning í Hof. Áætlun og rekstur miðstöðvarinnar fyrir árið 2012 hafa verið aðlagaðar að nýjum veruleika. Hins vegar þarf að meta hvað teljist eðlilegt framlag Akureyrarbæjar til rekstursins en hún er rekin samkvæmt samningi við Ferðamálastofu. Þá var ekki áætlað fyrir styrk bæjarráðs til Flugklasa á vegum Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi eystra og var frávikið þar 2 milljónir króna. Samtals var frávikið í atvinnumálum upp á um 5,7 milljónir króna, eða 7% yfir áætlun. Stjórn Akureyrarstofu brýnir fyrir stjórnendum í málaflokkunum að halda fast um pyngjuna á yfirstandandi rekstrarári.

 

Nýjast