Rekstur Hlíðarfjalls í útboð - Nýja stólalyftan opnuð með pompi og prakt næsta vetur

Stjórn Hlíðarfjalls hefur um nokkurt skeið verið að skoða möguleika á að útvista starfsemi skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli. Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar og formaður stjórnar Hlíðafjalls sagði fyrir ári síðan að reksturinn hefði verið erfiður en kostnaður þann skíðavetur var tæpar tvö hundruð milljónir króna.

Halla Björk Reynisdóttir

Útboðsgögn voru kynnt á síðasta fundi bæjarráðs Akureyrar og segir Halla Björk í samtali við Vikublaðið að hún vonist til að gögnin verði samþykkt í bæjarráði í dag, fimmtudag. Útboðið verður auglýst í samstarfi við Ríkiskaup.

Aðspurð hvernig rekstur Hlíðarfjalls hafi gengið í vetur segir Halla Björk að það hafi gengið vonum framar. „Þetta gæti auðvitað alltaf verið betra, en þrátt fyrir aðstæður þá var aðsókn mjög góð. Við vorum með marga góða daga þar sem aðsókn var mjög mikil,“ segir hún.

Halla Björk leggur áherslu á að erfiðleikar í rekstri vegna Covid -19 hafi ekkert með það að gera að verið sé að bjóða reksturinn út. „Við höfum verið að skoða þennan möguleika mun lengur. Okkur langar einfaldlega til að skoða hvort það séu ekki einhverjir áhugasamir og hugmyndaríkir einstaklingar þarna úti sem geta séð um þennan rekstur fyrir sama pening eða minni.“

Nýja lyftan fór ekki í gang

Ný stólalyfta í Hlíðarfjalli sem upphaflega átti að vera tilbúin í desember 2018 var ekki tekin í notkun í ár þrátt fyrir loforð um annað. Þetta hefur verið sagan endalausa en ítrekað hefur því verið lofað í fjölmiðlum að lyftan sé að verða tilbúin.  

Kostnaður við uppsetningu lyftunnar hefur farið langt fram úr áætlun og haustið 2019 var ljóst að kostnaður vegna uppsetningar myndi falla á Akureyrabæ. Í desember sama ár samþykkti bærinn að gera nýjan samning við Vini Hlíðarfjalls sem gerði ráð fyrir að bærinn keypti lyftuna við verklok á 323 milljónir króna, í stað þess að leigja hana til 15 ára.

Aðspurð hvað valdi þessum töfum segir Halla Björk að eitt og annað hafi komið upp á. „Stólar í lyftunni stórskemmdust m.a. í veðri og viðgerðir hafa tekið sinn tíma. Covid hefur líka tafið allt ferlið umtalsvert,“ útskýrir hún. Halla Björk blæs á sögusagnir um að ekki sé nægt rafmagn á svæðinu til að reka lyftuna. „Það er búið að leggja rafmagn fyrir lyftuna, það er ekki vandamálið. Hins vegar er rétt að veðurskilyrði eru ekki alltaf góð á þessum stað. Það er ljóst að í S-vestan roki þarf að binda niður stóla og þá er ekki hægt að hafa hana opna. Lyftan verður engu að síður kærkomin viðbót við þjónustuna á góðviðrisdögum. Þegar við sáum að erfitt yrði að opna lyftuna á nýliðinni skíðavertíð ákváðum við að gefa okkur tíma til að vanda til verks og opna lyftuna með pompi og prakt næsta vetur.“

Fréttin hefur verið uppfærð:

Ranglega var haft eftir Höllu að hún vonist til þess að útboðsgögn verði samþykkt í bæjarstjórn í dag, hið rétta er að hún vonast til að gögnin verði samþykkt í bæjarráði. búið er að leiðrétta fréttina.


Nýjast