Rekstraraðilar í Hofi ánægðir með fyrsta starfsárið
„Þetta fór reyndar hægt af stað og síðastliðinn vetur var rólegur. Það tekur auðvitað tíma fyrir fólk að átta sig á að starfsemin sé flutt og þetta var kannski svolítið falið í fyrstu. Sumarið gekk hins vegar mjög vel og ég vona að veturinn verði betri núna. Við erum allavega komin á kortið og orðin sýnilegri," segir Sigríður.
Hrím Hönnunnarhús er með verslun á jarðhæðinni en það eru þær Tinna Brá Baldvinsdóttir og Hrafnhildur Jónsdóttir sem reka og eiga verslunina. „Það er óhætt að segja að þetta hafi gengið vonum framar hjá okkur," segir Tinna, en verslunin leggur áherslu á falleg húsgögn, líflegan fatnað ásamt því að boðið er uppá vandaða skartgripi, listvöru og ýmislegt fleira. „Í heildina hefur allt árið farið framúr okkar áætlun og hafa vinsældir verslunarinnar aukist með hverjum mánuðinum," segir Tinna og bætir við að fyrirtækið njóti góðs af því að hafa verslun starfrækta í Hofi. „Þetta er stórskemmtilegt og gott tækifæri í tengslum við upplýsingamiðstöðina og menningarlífið á Akureyri."
1862 Nordic Bistro er veitingastaður í Hofi, en staðurinn dregur nafn sitt af árinu sem Akureyri fékk kaupstaðaréttindi og þeim dönsku áhrifum sem einkenndu verslun og viðskipti á Akureyri árum áður. „Þetta hefur gengið frábærlega," segir Hallgrímur Friðrik Sigurðarson, einn af fjórum eigendum staðarins. „Við erum náttúrulega svolítið í takt við komu gesta í húsið og við reynum að búa til þá stemmningu að þú sest við þitt eigið borð í hléi á sýningum og tónlistarviðburðum í húsinu. Svo höfum við stílað á svalirnar hérna uppi og að fólk komi fyrir sýningar og setjist þar niður." Hann segir fyrsta árið ekki alveg marktækt en það lofi góðu með framhaldið. „Við erum ennþá í mótun og að anda með húsinu en við erum í leiðinni að reyna búa til okkar eigin karakter. Við komum ágætlega undan sumri og ætlum að sækja á í vetur," segir Hallgrímur.